Staðgreiðsla opinberra gjalda

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:21:08 (2426)

2002-12-10 22:21:08# 128. lþ. 50.13 fundur 372. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (innheimta, skuldajöfnun o.fl.) frv. 135/2002, EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:21]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni fyrir greinargott yfirlit um þetta mál. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er sú að ég hef ritað undir þetta nál. með fyrirvara, og hann stafar einfaldlega af því að ég vildi leyfa mér í þessu sambandi að vekja athygli á því að með frv. er ríkisvaldið enn einu sinni að setja sjálft sig í aðra og betri stöðu en aðrir lánardrottnar hafa. Þannig er einfaldlega mál með vexti að með frv. er hið opinbera að tryggja sér stöðu umfram aðra í sömu stöðu. Þetta er auðvitað ekki eina dæmið þar sem ríkisvaldið er á undan. Þarna er gengið mjög langt í því að herða alla skilmála sem gerir það að verkum að þeir sem standa frammi fyrir því að skulda munu auðvitað greiða þessar skuldir fyrst og fremst til ríkisins vegna þess að þar eru viðurlögin harðari og meiri. Það mun auðvitað hafa það í för með sér að ef menn eru á annað borð í vanskilum og geta ekki greitt munu þeir einfaldlega láta hjá líða að greiða aðrar skuldir. Ríkið kemur sér í aðra og betri stöðu en aðrir lánardrottnar geta skammtað sér.

Virðulegur forseti. Þetta tel ég óeðlilegt í þessu sambandi. Þetta er hins vegar mál sem kallar á meiri athugun en hægt er að koma við við afgreiðslu þessa frv. hér sérstaklega, og þess vegna taldi ég ekki ástæðu til að leggjast bókstaflega gegn því.

Ég vildi hins vegar leyfa mér, virðulegur forseti, af þessu tilefni að vekja athygli á þessu máli og þessari stöðu. Ég hef áður vakið athygli á því að ríkisvaldið getur skapað sér aðstöðu varðandi lögveð og annað þess háttar umfram aðra lánardrottna. Það tel ég einfaldlega óeðlilegt og vil þess vegna, virðulegi forseti, nota tækifærið til þess að vekja athygli á þessu máli ef það gæti orðið til þess að menn gætu í eðlilegu samhengi og svona almennt þegar verið væri að fjalla um mál eins og þetta tekið það upp með öðrum hætti og skoðað það í samhengi.