Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:26:23 (2429)

2002-12-10 22:26:23# 128. lþ. 50.16 fundur 376. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (tryggingardeild útflutnings) frv. 143/2002, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:26]

Frsm. efh.- og viðskn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Það er svo sem óvenjulegt því hér hefur mjög röskur formaður efh.- og viðskn. staðið lungann úr kvöldinu og mælt fyrir nál. frá þeirri nefnd.

Það er rétt að skýra það, herra forseti, að þau mistök urðu við 1. umr. að þessu máli um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins var vísað til iðnn. enda snertir málið að miklu leyti íslenskan iðnað. Við nánari athugun kom í ljós, og rétt er, að þetta mál heyrir undir efh.- og viðskn. enda snertir það Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en síðla dags á föstudag þegar búið var að boða til fundar í iðnn. og búið að boða gesti sem þetta mál snertir. Að höfðu samráði við embættismenn þingsins og hv. formann efh.- og viðskn. var ákveðið að iðnn. afgreiddi málið og sendi síðan sitt nál. til efh.- og viðskn.

Iðnn. fjallaði ítarlega um málið og fékk ýmsa gesti á sinn fund og umsagnir eins og getið er um í fylgiskjalinu á þskj. 633 en þetta er í rauninni afskaplega einfalt frv. Það lýtur að því að víkka út starfsheimildir tryggingardeildar útflutnings innan Nýsköpunarsjóðs frá því sem verið hefur. Það hefur komið í ljós að sambærilegar tryggingardeildir á Norðurlöndum búa við rýmri lagareglur en hér tíðkast og er verið með þessu að reyna að bæta þar úr. Markmið frv. er að treysta samkeppnisstöðu íslensks útflutnings.

Það hefur, herra forseti, komið í ljós að þær þröngu reglur sem eru um tryggingardeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafa gert það að verkum að ýmis mjög ágæt verkefni, svo sem í skipaiðnaði, hafa ekki getað fengið svokallaðar verkábyrgðir og hefur það í rauninni ógnað mjög ágætum verkum sem íslenskur skipaiðnaður og aðrir hafa leitað eftir. Slíkar reglur eins og hér hefur verið nefnt eru mun rýmri í samkeppnislöndum okkar í nágrenninu og því er eðlilegt að efla samkeppnisstöðu útflutningsgreina og okkar sem þjóðar með því að rýmka þennan þátt innan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Það er þó rétt að taka fram að þetta stenst, svo fremi sem ekki er verið að fara í samkeppni við einkamarkaðinn, reglur Evrópusambandsins og EFTA. Á það er lögð áhersla í nál. frá meiri hluta iðnn. að með þessari lagasetningu, ef af verður, verði þess gætt við framkvæmd laganna að ekki verði farið inn á starfssvið fjármálafyrirtækja heldur er hér einungis verið að fjalla um þau verkefni sem fjármálafyrirtækin af ýmsum ástæðum ekki vilja eða geta sinnt.

Herra forseti. Iðnn. sendi þetta álit sitt til hv. efh.- og viðskn. þar sem málið fékk einnig stutta umfjöllun og síðan afgreitt. Undir nál. efh.- og viðskn. rita hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Hjálmar Árnason, Einar Guðfinnsson, Gunnar Birgisson, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson, sem þó setur fyrirvara.

Undir álit meiri hluta iðnn. setja nöfn sín hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kjartan Ólafsson og Bryndís Hlöðversdóttir, með fyrirvara, sem og Árni Steinar Jóhannsson, með fyrirvara.

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.