Löggilding starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:33:43 (2431)

2002-12-10 22:33:43# 128. lþ. 50.27 fundur 354. mál: #A löggilding starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum# (tölvunarfræðingar o.fl.) frv. 147/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:33]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

Nefndin fékk umsagnir um þetta mál og gesti og fjallaði nokkuð ítarlega um það.

Þetta er einfalt frv. Með því er lagt til að starfsheitið ,,tölvunarfræðingur`` verði löggilt. Jafnframt eru gerðar smávægilegar breytingar varðandi starfsheiti húsgagna- og innanhússarkitekta.

Samkvæmt 2. gr. laganna þarf leyfi ráðherra til að nota þau starfsheiti sem löggilt eru. Í frv. er gerð undantekning frá þessu hvað varðar tölvunarfræðinga sem lokið hafa BS-prófi eða meistaranámi í tölvunarfræði frá viðurkenndum íslenskum háskóla. Leyfisveitingar ráðherra í tilvikum sem þessum eru hreint formsatriði. Gera má ráð fyrir að hið breytta fyrirkomulag spari tíma og fyrirhöfn, bæði hjá stjórnvöldum og leyfisbeiðendum.

Herra forseti. Eftir að hafa fjallað nokkuð ítarlega um málið í iðnn. var samþykkt að mæla með þessari breytingu með örlítilli breytingu á sjálfu frv. Það er ekki efnisleg breyting, frekar orðalagsbreyting.

Undir nál. rita hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Árni Ragnar Árnason, Kjartan Ólafsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Svanfríður Jónasdóttir.