Matvælaverð á Íslandi

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:53:48 (2436)

2002-12-10 22:53:48# 128. lþ. 50.18 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:53]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hér hefur hv. formaður allshn. flutt nefndarálit allrar nefndarinnar um þá þáltill. sem flokkssystir mín, Rannveig Guðmundsdóttir, er 1. flm. að. Það er 3. mál þessa þings núna og var eitt af aðalmálum Samfylkingarinnar í upphafi þings. Ég kem til þess að lýsa ánægju minni með störf allshn. og hve fljótt og vel hefur verið unnið að þessu máli. Fjölmargir hafa komið til skrafs og ráðagerða með nefndinni, t.d. frá Kaupási, Samkaupum, Baugi og öðrum, frá flutningsaðilunum, Eimskip, Samskipum og Flugleiðum og fleirum sem komu til nefndarinnar að ræða þetta mikilvæga mál.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, var þetta eitt af aðalmálum þingflokks jafnaðarmanna í upphafi þings og það er ánægjulegt hvað það fær hér góðar viðtökur. Það að nefndin öll skuli koma fram með lítils háttar breytingu á tillögugerðinni er smáatriði. Aðalatriðið er að allir nefndarmenn hafa fallist á og séð að þetta þarf að skoða.

Það er sannarlega rétt. Ég tók þátt í umræðu um þetta mál þegar það var lagt fram og fór í gegnum það svona eins og það lá fyrir mér. Þess vegna fagna ég því að það eigi að skipa nefnd sem fari yfir þetta. Ég þykist sjá og vita að flutningskostnaður mun vega mjög þungt í þessu máli.

Herra forseti. Það leiðir hugann að öðru máli sem við jafnaðarmenn fluttum í upphafi þings, þ.e. 18. máli á dagskrá, sem er um vöruverð og samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og hátt vöruverð á landsbyggðinni. Ég verð hins vegar að segja því miður, herra forseti, að það mál hefur ekki fengið eins góða afgreiðslu og góða tiltekt í þinginu og þessi tillaga. Ég vildi óska þess að mér hefði tekist að koma því máli til allshn. Þá hefði það kannski fengið jafnfljóta og góða afgreiðslu og þetta mál.

Tillaga mín sem er 18. mál þessa þings hefur tvisvar verið tekin á dagskrá þingsins. En umræðu er ekki lokið. Síðast var umræðu frestað að beiðni hv. 1. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals sem vildi ræða þetta mál þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, væri viðstaddur og tæki þátt í þeirri umræðu.

Ég get aðeins sagt, herra forseti, að við þingmenn Samfylkingarinnar bíðum spennt eftir því að fá að klára þetta mál á Alþingi og vil ég biðja hæstv. forseta um að beita áhrifum sínum næst þegar forsn. kemur saman til að athuga það mál sem er till. til þál. um vöruverð og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, það mál er hér í einhverjum óskiljanlegum frestunum. Það hefur ekki komist á dagskrá. Ég vil óska eftir því að hv. forsn. tæki það fyrir að koma því á dagskrá sem allra fyrst.

(Forseti (ÁSJ): Eins og hv. þm. benti á í ræðu sinni þá var umræðu um nefnt mál frestað á sínum tíma og kemur til dagskrár á seinni stigum. Þannig standa þau mál.)

Já, ég þykist nú vita það og vissi það nú reyndar að málið mundi einhvern tíma koma á dagskrá. En það sem ég er að biðja um, hæstv. forseti, er að þetta mál verði tekið fyrir í forsn. og að hæstv. forseti sem situr hér og stýrir þessum fundi, taki það upp í hv. forsn. og beiti áhrifum sínum til að málið komist á dagskrá, en verði ekki látið bíða fram í janúar eða febrúar. Þá er fulllangt beðið. Þessari ósk er hér með komið á framfæri.

Ég vildi bara rétt segja um þetta nefndarálit og breytingartillögu sem hv. allshn. flytur að ég lýsi ánægju minni með störf allshn., þ.e. að málið skuli fá svo fljóta meðferð og vera komið hér þannig að það verður samþykkt. Það er sannarlega ekki vanþörf á að skoða þetta.

Herra forseti. Ég verð að segja að þegar ég leit yfir hópinn sem situr í allshn. þá kom mér í raun ekki á óvart að þetta skuli fá svo fljóta og góða afgreiðslu. Mér sýnist nefndin vera mjög vel skipuð jafnaðarmönnum úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum þessa lands.