Póstþjónusta

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:30:33 (2443)

2002-12-10 23:30:33# 128. lþ. 50.21 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið þó að full ástæða væri til þess. Ég veit hins vegar að það tjóar lítt úr þessu þótt ég og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum ekki gefast upp við að halda sjónarmiðum okkar fram. Nú er að koma á daginn að sitthvað sem við vöruðum við þegar kerfisbreytingar voru gerðar á Pósti og síma á sínum tíma reyndist rétt.

Ég er ekki alveg sammála hv. þm. Kristjáni Möller um að þetta sé ekki hluti af sömu heild. Ef við tökum það sem hefur verið að gerast hjá Íslandspósti í seinni tíð er það svo að fyrirtækinu er gert að rísa sjálft undir tilkostnaði við þjónustuna. Þá er ráðist í breytingar á póstburðargjöldum. Þau eru stöðugt færð upp og ég lýsti afleiðingum þessa fyrir félagslega útgáfu.

Hvað gerist þá? Hver er líkleg afleiðing þessa? Jú, líklega munu viðkomandi félög draga úr útgáfu eða reyna að fá aðra aðila, íþróttafélög eða aðra, til að annast þessa dreifingu, alla vega að hluta til þar sem því verður komið við. Hitt mun þá hugsanlega, í strjálbýlli héruðum, vera á hendi á Póstsins, þess sem er dýrara. Þegar til lengri tíma er litið mun þetta grafa undan rekstrarskilyrðum Póstsins. Þannig er smám saman þrengt að þessari stofnun.

Ég er sammála hv. þingmanni um að félagsleg útgáfa þarf að fá samfélagslegan stuðning. Það fékk hún. Eða eru menn búnir að gleyma því að Póstur og sími voru í nánu sambýli á Íslandi? Síminn, eins og við þekkjum, greiddi í ríkissjóð frá um 1990 fram til aldamóta um 20 milljarða kr. Þessir peningar voru hreinn arður af Símanum. Þeir voru afgangs eftir að fjármagn hafði verið tekið til uppbyggingar og til að niðurgreiða póstþjónustuna í landinu. Pósturinn hefur alltaf átt undir högg að sækja og naut þess að vera í hinu nána sambýli við Símann.

Menn töldu á sínum tíma að þetta væri úrelt fyrirkomulag, Pósturinn væri að þróast í eina átt og Síminn í aðra. Nú er að koma á daginn að þetta sambýli tilheyrir framtíðinni. Skilin á milli Póstsins og Símans eru stöðugt að verða ógleggri. Þessar stofnanir eru á nýjan leik að færast saman. Allt þetta var nokkuð sem við bentum á á sínum tíma.

Það sem hér er að gerast er einfaldlega áframhaldandi þróun í þessa átt, í markaðsvæðingarátt. Það mun leiða til þess að enn mun fjara undan þessari stofnun. Hún mun eiga undir högg að sækja. Hvers vegna? Vegna þess að markaðsvæðingin gengur út á að önnur fyrirtæki sæki inn á þennan vettvang. Að sjálfsögðu sækja þau þar inn á vettvanginn sem einhverja arðsemi er að fá. Þeirri arðsemi verður Pósturinn síðan af þannig að þar komast menn í vítahring.

Við hvetjum til þess að menn staldri við til að stöðva þessa þróun. Hvernig gerum við það? Við erum vissulega skuldbundin af ákvæðum EES-samningsins, það er rétt. Fyrsta skrefið væri að kanna á hvern hátt við gætum fengið undanþágu frá þessum tilskipunum. Það er fyrsta skrefið sem á að stíga, að skoða það. Láta einhverjir aðrir en við sér detta í hug að slíkt geti reynst hyggilegt? Þetta höfum við bent á vegna þess að síðan endum við með þá niðurstöðu að enginn hefur efni á að nýta sér þessa þjónustu sem þó verður að vera til staðar í þjóðfélaginu. Þá verður kallað á ríkisstyrk. Það er það sem gerist. Við erum búin að taka mjólkurkúna, sem Síminn var, sem niðurgreiddu þessa þjónustu. Samfélagið borgaði aldrei til Símans, ekki eina einustu krónu. Mjólkurkýrin er afhent út á markaðinn þar sem arðurinn streymir út en við sitjum uppi, skattborgarinn, með hinar þungu byrðar.

Nú er þetta að gerast með bankana eins og við þekkjum. Búnaðarbankinn og Landsbankinn hafa ekki fengið eina einustu krónu frá ríkissjóði um áratugi nema í formi lána. Þegar Landsbankinn fékk fyrir fáeinum árum fjármagn úr ríkissjóði var það allt greitt til baka. Búnaðarbankinn skilar á þessu ári 2.000 millj., tveimur milljörðum, eftir skatta. Allar þessar mjólkurkýr eru settar frá okkur og síðan reyna menn að að stoppa í götin með þeirri þjónustu sem eftir er, með því að skapa heimildarákvæði fyrir samfélagið til að fá leyfi, undanþágur frá markaðnum, til að styrkja ýmsa félagslega þjónustu og dreifbýlið.

Finnast mönnum þetta hyggilegir búsiðir? Mér finnst það ekki, okkur finnst það ekki. Við nálgumst þetta einfaldlega út frá hreinum búhyggindum. Einhvern tíma fyrr á tíð voru vinstri menn sakaðir um að vera mjög háðir hugmyndafræði, að þeir létu stjórnast af hugmyndafræði. Nú er þessu snúið við. Nú er það hægri vængurinn sem lætur stjórnast af hugmyndafræði um hvernig eigi að skipuleggja samfélagið. Það skal markaðsvætt alveg óháð því hvort það reynist borga sig eða ekki.

Við teljum þær kerfisbreytingar sem verið er að leggja til einfaldlega óhyggilegar gagnvart þjónustunni og gagnvart skattborgaranum í landinu. Þess vegna hvetjum við til þess að menn endurskoði vinnubrögðin. Hyggilegast væri að draga þetta frv. til baka, setjast yfir málið að nýju og spyrja spurninganna: Getur það verið að við eigum að kanna hvort þetta eigi ekki að heyra til undantekninga? Er þarna ekki efni til að fá undanþágu frá EES-tilskipuninni? Alla vega væri rétt að taka málið til umræðu í samgn. og síðan í þinginu.