Póstþjónusta

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:40:59 (2445)

2002-12-10 23:40:59# 128. lþ. 50.21 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Það var margt sagt og mörgu lofað í tengslum við hlutafélagavæðingu Símans. Þáv. samgrh., Halldór Blöndal, sagði t.d. að í sínum huga kæmi ekki til greina að Síminn yrði seldur, hann yrði að vera að öllu leyti í eigu ríkisins. Það var náttúrlega ekki staðið við þessi fyrirheit. Þetta var svikið.

Hið sama gildir um réttindi starfsfólks. Þau voru látin fjara út og Íslandspóstur var ekki reiðubúinn að nýta sér þær kerfisbreytingar sem gerðar voru á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem póstmennirnir voru í, til að veita þeim þar aðgang. Það var því ekki staðið við að réttindin héldust óbreytt.

Varðandi afnotagjöldin þá þekki ég ekki svo gerla til þeirra. Hitt veit ég, að kerfið sem við bjuggum almennt við í samfélaginu byggði m.a. á því að samfélagslegar stofnanir sýndu ábyrgð, Síminn t.d. með því að veita ellilífeyrisþegum og öryrkjum, að því er ég best veit, afslátt af símakostnaði. Nú á að hætta öllu slíku.

Það er þessi þróun sem íslenskt samfélag hefur verið að færast í áttina til á undanförnum árum. Markaðsvæðingartakturinn hefur verið sleginn mjög hart af ráðherrastólunum. Þetta hefur leitt til aukinnar mismununar og hennar hefur gætt innan veggja þessara ágætu stofnana einnig, því miður.