Póstþjónusta

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:46:03 (2449)

2002-12-10 23:46:03# 128. lþ. 50.21 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:46]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hv. þm. og formaður samgn. var einmitt að benda á villu í nál. meiri hlutans þar sem stendur að lagt sé til að 1. janúar 2001 lækki þyngdarmörkin úr 250 í 100 gr. Árið 2001 er löngu liðið þannig að það var svo sem ágætisábending.

Ég kom annars upp til að bregðast við því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi, þ.e. um hver forsendan væri eða hvers vegna væri verið að flytja þetta frv. eða standa að þessum breytingum sem skerða og draga úr ábyrgð ríkisins á póstþjónustu.

Það er hárrétt sem hv. þm. sagði. Þarna er vitnað til reglna frá Evrópusambandinu um Evrópska efnahagssvæðið sem við erum aðilar að. Þetta kom einmitt til umræðu í samgn. á þeim forsendum. Fulltrúar samgrn. sögðu það berum orðum, eins og kemur reyndar fram í nál. og í frv., að hér væri fyrst og fremst verið að uppfylla tilskipun frá Evrópusambandinu. Ég spurði í samgn. hvort menn væru alveg hættir að leggja skynsemismat á hlutina, hvort nefndarmenn í samgn., starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra væru alveg hættir að leggja skynsemismat á hlutina þegar fram kæmi að uppfylla þyrfti einhverja tilskipun frá Evrópusambandinu.

Svarið sem kom við því, virðulegi forseti, var reyndar bara: Já. Menn sögðu að það væri ekkert verið að leggja neitt skynsemismat á hlutina ef það kæmi frá Evrópusambandinu. Ég taldi að bæði nefndin og ráðuneytið ættu að kanna málið sjálfstætt, hvort breytingarnar sem verið væri að gera væru landi og þjóð til heilla. Ég taldi að nefndin ætti að kanna það sjálfstætt og einnig hvort ekki væri hægt að komast hjá því að fara eftir þessum tilskipunum. Til þess virtist hins vegar enginn vilji, hvorki hjá samgn. né hjá ráðuneytinu, þetta væru bara reglur frá EES og þeim þyrftu ekki að fylgja nein skynsemisrök. Ég minnist þess að þessi orðaskipti urðu.

Það er ekki boðlegt á hinu háa Alþingi að við skulum vera búin að ofurselja okkur yfirþjóðlegu valdi þannig að við þurfum ekki lengur að beita eigin skynsemi við meðferð mála. Ég minnist þess þó að hæstv. forsrh. hefur sagt hér í þingsal að það sé ekki sjálfgefið að við eigum og þurfum að fara eftir þeim tilskipunum sem Evrópusambandið setur. Hann segir það okkar ákvörðun. Það sé okkar að staðfesta það ef við viljum gera það. Hjá hæstv. forsrh. hefur þó a.m.k. af og til örlað á því að stundum mætti beita skynsemi að skaðlausu.

Hér er skynseminni því miður kastað fyrir róða. Annars vegar er verið að uppfylla tilskipanir frá EES, gjörsamlega gagnrýnislaust. Hins vegar falla þær kannski líka að stefnu ríkisstjórnarinnar að því að einkavæða póstþjónustuna. Það er einkavæðing sem leiðir til þess að þessi samfélagsþjónusta mun hverfa af borðinu í stórum dráttum.

Hér hefur verið minnst á að póstþjónustan og póstafgreiðslan sé að færast inn í bankaútibúin. Ætli það sé ekki verið skammgóður vermir? Sú hefur orðið raunin að bankaútibúum fækkar og skert póstþjónusta sem nú er eftir mun ekki hefta þá þróun verði vilji ríkisstjórnarinnar keyrður fram.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á því að við meðferð þessa máls kom til umræðu í samgn. hvort ekki ætti að beita á þetta mál skynsemi eða skynsemisrökum, velta málinu fyrir sér út frá því hvort það væri landi og þjóð til farsældar. Af hálfu samgn. og fulltrúa samgrn. var því svarað að svo væri ekki gert í þessu tilviki heldur væri verið að uppfylla tilskipanir frá EES. Við það var látið sitja.

Ég harma þau svör sem fengist hafa og þá stefnu sem rekin er í þessu frv., að einkavæða almannaþjónustuna, einkavæða póstþjónustuna frá hinum almenna neytenda í landinu.