Vitamál

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:52:54 (2450)

2002-12-10 23:52:54# 128. lþ. 50.22 fundur 258. mál: #A vitamál# (vitagjald, sæstrengir) frv. 142/2002, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:52]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999, frá samgn.

Með frumvarpinu er lögð til 14% hækkun á vitagjaldi og jafnframt hækkun á lágmarksgjaldi samkvæmt lögunum. Hækkunin er í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs og þá stefnu að notendur greiði kostnað af veittri þjónustu. Þjónusta við sjófarendur hefur aukist mikið á undanförnum árum. Til að mynda hefur öldumælingaduflum og veðurstöðvum fjölgað í tengslum við uppbyggingu á upplýsingakerfi Siglingastofnunar um veður og sjólag.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að aflað verði samþykkis Siglingastofnunar Íslands áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar og jafnframt að leitað skuli umsagnar stofnunarinnar um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó. Varfærni við lagningu sæstrengja og annarra neðansjávarleiðslna er mikilvæg af ýmsum ástæðum, ekki síst með tilliti til fiskveiða. Neðansjávarleiðslur geta og hafa leitt til röskunar á fiskveiðum. Af þessum sökum telur nefndin mikilvægt að tryggja að ávallt sé leitað álits hagsmunaaðila í sjávarútvegi áður en hafist er handa við lagningu sæstrengja og annarra neðansjávarleiðslna.

Nefndin vekur athygli á að lokasetning í athugasemdum við 1. gr. frumvarpins, þar sem segir að skip undir 10 brúttótonnum séu undanþegin vitagjaldi samkvæmt gildandi reglum, á ekki við rök að styðjast. Hið rétta er að öll skip greiða vitagjald.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

,,Við 1. efnismgr. 2. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Áður en samþykki er veitt skal stofnunin leita álits hagsmunaaðila í sjávarútvegi.``

Undir nál. rita auk mín hv. þm. Hjálmar Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir.

Herra forseti. Að lokinni 2. umr. legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.