Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:34:20 (2453)

2002-12-11 13:34:20# 128. lþ. 51.1 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta frv. leiðir berlega í ljós pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar. Það er hluti af umfangsmeiri skattbreytingum sem koma til framkvæmda við þessi áramót og munu hafa í för með sér um 2 milljarða kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð á komandi ári samkvæmt mati fjmrn.

Að uppistöðu til koma skattbreytingarnar fyrirtækjum og hátekjufólki fyrst og fremst til góða en eru á kostnað smárra fyrirtækja. Þannig lækkar tekjuskattur fyrirtækja við áramótin um 1.700 millj. en á móti eru sóttar 1.800 millj. með hækkun tryggingagjalds sem einkum kemur mannmörgum fyrirtækjum í koll. Þá eru skattleysismörk hátekjufólks hækkuð og skattprósentan hjá því fólki að sama skapi. Við höfum séð stærri jólagjafir í ár, kann einhver að segja, minnugur þess að hreinn gróði Búnaðarbankans eftir skatta er á þessu ári um 2 milljarðar kr. Nokkuð kann að vera til í því að þiggjendur Búnaðarbankans megi þakka sínum sæla en minnumst þess að þetta eru skattkerfisbreytingar sem ætlað er að standa til framtíðar og þannig er frá þessum breytingum gengið að öll verkalýðshreyfingin, samtök eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands eru þeim andvíg og tala gegn þeim einum rómi.