Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:45:09 (2458)

2002-12-11 13:45:09# 128. lþ. 51.1 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Með því að samþykkja þessa brtt. yrði ríkissjóði aflað 300 millj. kr. á komandi ári. Um er að ræða svokallaðan hátekjuskatt sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi er að lækka um 2 prósentustig jafnframt því sem skattleysismörk hátekjuþrepsins eru hækkuð upp í rúmar 340 þús. kr. fyrir hvern einstakling. Þetta er síðan innheimt með því að stíga á bremsuna gagnvart því fólki sem býr við lökustu kjörin. Vel innan við helmingur af þeirri upphæð sem ríkisstjórnin er núna að gefa hátekjufólki í jólagjöf hefði nægt til að fjármagna tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um desemberuppbót upp á 36 þús. kr. fyrir atvinnulaust fólk. Þessi atkvæðagreiðsla gefur okkur innsýn í forgangsröð þingsins.