Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:52:02 (2462)

2002-12-11 13:52:02# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég styð frv. í heild sinni sem nauðsynlega og gagnlega breytingu á lögum um fjármálamarkaðinn og aðlögun hans að Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar hlýt ég að vera á móti þeim sérkennilegu ákvæðum sem ætlað er að grípa inn í deilumál vegna gildandi laga þar sem sú framkvæmd að dæma með lagasetningu fer í bága við þrískiptingu valdsins. Ákvæðum frv. er ætlað að breyta réttaráhrifum gildra samninga milli manna með afturvirkum hætti. Á ég þar við svokallaðar yfirtökuvarnir sparisjóða í 2. mgr. 70. gr. Það er dómstóla að dæma um réttarágreining.

Herra forseti. Þessi framkvæmd minnir á tilskipanir einræðisherra fyrri tíðar. Enn fremur er eignarrétturinn skertur með þessu frv. sem ekki fær staðist stjórnarskrána að mínu mati. Ég segi já við frv. í heild sinni en mun gera grein fyrir afstöðu minni í þeim greinum sem ég er andvígur.