Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 14:13:23 (2465)

2002-12-11 14:13:23# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, forsrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þess sem fram kom í umræðunum fyrr um að óskað var eftir því að þeir sem ættu stofnfjárhluti í sparisjóði mundu ekki taka þátt í atkvæðagreiðslum um þessi atriði vil ég taka til máls. Ég á stofnfjáreign í Sparisjóði Reykjavíkur, ég vil taka það fram, en jafnframt vil ég ítreka að ég tel að svona ósk sé á þeim reginmisskilningi byggð að um vanhæfisskilyrði þingmanna sé að ræða. Þingmenn verða almennt ekki vanhæfir, til að mynda getur hv. þm. Ögmundur Jónasson talað hér og greitt atkvæði um BSRB eins og hann vill, hann hefur sjálfsagt lofast til þess áður en hann fór til þings. Formenn stjórnmálaflokkanna geta greitt atkvæði með tillögum um fjárframlög til stjórnmálaflokka. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir getur greitt atkvæði með launafólki að eigin mati þó að hún hafi lofað að gera það fyrir kosningar. Þingmenn verða almennt ekki vanhæfir en það er ágætt að við vitum nákvæmlega hvar þeir standa. Það er algjör misskilningur að krefjast þess að þingmenn sýni einhverja vanhæfni af einu eða öðru tilefni hér. Það er enginn þingmaður vanhæfur við afgreiðslu mála í þinginu.