Póstþjónusta

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 14:39:39 (2470)

2002-12-11 14:39:39# 128. lþ. 51.15 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessum breytingum á lögum um póstþjónustu er gengið enn lengra en áður í að markaðsvæða póstþjónustuna í landinu með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum að rekstrarforsendur Íslandspósts hf. munu veikjast og póstburðargjöld hækka. Mest mun þetta bitna á landsbyggðinni og félagasamtökum. Ég vek athygli á því að þessum lagabreytingum hefur verið harðlega mótmælt af samtökum póstmanna og andmæli hafa borist víðar að úr þjóðfélaginu.

En hvers vegna er þetta gert? Það er gert vegna þess að þetta byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu. Við umræðu um þetta frv. hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hreyft þeirri hugmynd að við leituðum undanþágu frá þessari tilskipun en það er með þetta mál eins og annað sem kemur frá Evrópusambandinu að þar fljóta menn áfram í meðvitundarleysi og taka boðskapinn frá Brussel nánast eins og heilaga ritningu. Ég harma þetta andvaraleysi og vara við þeim lagabreytingum sem hér á að ganga til atkvæða um.