Vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:09:28 (2474)

2002-12-11 15:09:28# 128. lþ. 52.1 fundur 147. mál: #A vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það er gott að við eigum von á því að fá frumvörp inn í þingið þar sem tekið verður á þessum málum, og gefast þá færi á að ræða þau frekar en í stuttum fyrirspurnatíma. Umhverfið er hins vegar að breytast svo mikið að ég held að það séu fullkomnir draumórar ef ríkisstjórnin heldur að hún geti haldið óbreyttu ástandi gagnvart þessu fyrirtæki.

Í fyrsta lagi er umhverfi raforkumála væntanlega mjög að breytast. Hér á að efna til samkeppni á raforkumarkaði og það hlýtur að verða spurt hvort það geti staðist eftir þennan úrskurð að ríkið afhendi einu fyrirtæki þessi mikilvægu réttindi án endurgjalds. Ég tek það ekki gilt að eignarhlutur ríkisins í fyrirtækinu jafngildi því að fyrirtækið hafi greitt fyrir réttindin. Sá eignarhlutur kann líka að breytast, herra forseti, vegna þess að ef svo fer fram sem horfir hygg ég að við munum horfa framan í það að Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag í fyllingu tímans og auðvitað mun Landsvirkjun þurfa að taka þátt í starfsemi á markaði eins og önnur orkufyrirtæki.

Það er óvissa um ýmsa þætti, herra forseti, og ég vil undirstrika að lokum að ríkisstjórn Íslands, hver sem hún er á hvaða tíma, mun ekki komast upp með að mismuna atvinnugreinum, hvað þá fyrirtækjum, hvað það varðar að greitt verði fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Ef sumar atvinnugreinar eru látnar greiða auðlindagjald eða hvað menn kalla það, greiða fyrir nýtinguna, mun ávallt standa á ríkisstjórnina sú krafa að aðrar atvinnugreinar geri slíkt hið sama ef þær nýta einnig auðlindir í sameiginlegri eigu þjóðarinnar.