Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:22:47 (2480)

2002-12-11 15:22:47# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Í rúman áratug hefur Félag heyrnarlausra unnið að bættri réttarstöðu heyrnarlausra og hefur félagið lagt aðaláherslu á viðurkenningu á táknmáli og lögbundinn rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Á þessum áratug hefur ýmislegt gerst. Fyrst ber að nefna að vorið 1999 var á Alþingi Íslendinga samþykkt þál. um að íslenska táknmálið yrði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra. Með leyfi forseta, hljóðar þál. svo:

,,Alþingi ályktar að menntamálaráðherra verði falið að láta gera athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi í samanburði við réttarstöðu heyrnarlausra í nágrannalöndunum með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins.``

Allan þann tíma sem liðinn er síðan þetta var, herra forseti, hafa málefni heyrnarlausra verið til umfjöllunar í hinu opinbera kerfi. Starfshópar hafa verið stofnaðir og skýrslur hafa verið skrifaðar. Má þar nefna starfshóp sem stofnaður var á vordögum 1997 og var ætlað að gera úttekt á og skilgreina hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbr.- og trmrn. væru í raun félagsleg verkefni sem eðlilegra væri að heyrði undir félmrn. Einnig var þeim starfshópi falið að fjalla um verkaskiptingu ráðuneyta í þágu fatlaðra.

Þá var stofnuð nefnd vorið 2000 sem fékk það hlutverk að gera tillögur um lögbundinn rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu. Ekki er nóg, herra forseti, að þær nefndir hafi starfað og þó að skýrslur hafi verið skrifaðar, það er eins og málefni heyrnarlausra hafi orðið stjórnkerfinu of þung í vöfum því að á hverju ári skrifar Félag heyrnarlausra bréf til stjórnvalda þar sem óskað er svara og úrbóta í málefnum heyrnarlausra, bæði hvað varðar lögleiðingu íslenska táknmálsins sem móðurmáls og sömuleiðis hvað varðar túlkaþjónustuna. Í ljósi alls þessa leyfi ég mér, herra forseti, að leggja fjórar spurningar fyrir hæstv. menntmrh. en þær eru svohljóðandi:

1. Hvað hefur verið gert til að tryggja stöðu íslenska táknmálsins síðan Alþingi ályktaði að slíkt skyldi gert 11. mars 1999?

2. Hefur verið gerður samanburður á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi og í nágrannalöndum okkar?

3. Hvernig er háttað rétti heyrnarlausra til túlkaþjónustu og hvað er gert af hálfu ríkisins til að tryggja þennan rétt?

4. Eru uppi áform um að setja sérlög um málefni heyrnarlausra?