Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:37:39 (2487)

2002-12-11 15:37:39# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Vegna tímatakmarkana held ég að svar mitt við fjórðu spurningunni þar sem spurt er hvort áform séu um að setja sérlög um málefni heyrnarlausra verði nokkuð snubbótt. En almennt get ég sagt að mér er hvorki kunnugt um að áform séu uppi um að setja sérlög um málefni heyrnarlausra né til að mynda um málefni blindra svo að dæmi sé tekið. Ákvörðun um slíkt væri þá væntanlega á forræði félmrh. þar sem félmrn. fer með málefni fatlaðra.

Ég tel hins vegar mikilvægt að tryggja fötluðum nauðsynlega félagslega þjónustu með sem víðtækustum hætti. Ég tel jafnframt eðlilegt að það sé gert frekar með almennum hætti í lögunum t.d. um málefni fatlaðra. Ég vil hins vegar taka það fram hér að vegna hefðar sem skapast hefur í íslenska stjórnkerfinu skapa samstarfssvið milli ráðuneyta stundum grá svæði sem okkur hefur ekki tekist að taka nógu vel á og því er nauðsynlegt að leiða þá umræðu til lykta og það fljótt. Ég mun sjálfur beita mér fyrir því að gera það.

Ég vil aðeins nefna eitt sérstaklega af því að það var nefnt hér í umræðunni sem mér finnst mjög góð. Mér finnst þessi umræða mjög góð. Nefnt var vandamálið með textun á sjónvarpi. Ég get upplýst þingið um að ég hef einsett mér að beita mér fyrir þessu líka. Fyrsti fundur sem við höldum með Ríkisútvarpinu um þetta verður á morgun þannig að verið er að taka á því máli líka.

Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Ég hygg að við munum ná árangri í þessu máli.