Umferðarslys í Reykjavík

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:42:20 (2489)

2002-12-11 15:42:20# 128. lþ. 52.5 fundur 365. mál: #A umferðarslys í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn sem snýr sérstaklega að Reykjavík. Ég veit líka að hún er mikil áhugamanneskja um bætta umferðarmenningu.

Svör mín eru byggð á upplýsingum frá Umferðarstofu. Því miður eru tölur fyrir árið 2001 ekki tiltækar þar sem slysaskráningin er nokkuð á eftir. Hins vegar er hægt að upplýsa að búið er að fjölga starfsfólki hjá Umferðarstofu í slysaskráningu og vonandi liggja nýjar tölur fyrir áður en langt um líður.

Fyrsta spurningin er: ,,Hver hefur þróun banaslysa og alvarlegra slysa í umferðinni í Reykjavík verið sl. tíu ár? Hvert er hlutfall umferðarslysa í Reykjavík miðað við landsmeðaltal á þessu árabili?``

Þegar þróun banaslysa og alvarlegra slysa í umferðinni í Reykjavík er skoðuð árin 1991--2000 sést að fjöldi banaslysa og alvarlegra slysa milli ára hefur verið nokkuð breytilegur. Hlutfall banaslysa er áttu sér stað í Reykjavík á þessu tímabili er að meðaltali um 21% og hlutfall alvarlegra slasaðra er um 30% af fjölda alvarlegra slysa á landinu. Tölur um fjölda banaslysa og alvarlegra slysa milli einstakra ára og hlutfall þeirra í Reykjavík miðað við landsmeðaltal væri of langt mál að lesa úr ræðustól og mun ég því ekki fjalla nánar um þennan lið fyrirspurnarinnar heldur afhenda hv. fyrirspyrjanda skriflegar upplýsingar þar um sem ég hef hér. Ég vil þó láta þess getið að ef við lítum t.d. á árin 1999 og 2000 þá virðist vera talsverð fækkun á umferðarslysum milli ára. Ef við lítum á prósentutölur og hlutfall af fjölda alvarlegra slasaðra og látinna á hverju ári í Reykjavík fyrir árið 2000 þá eru slys 414 talsins. Þar sem orðið hafa mikil meiðsli er talan 52 eða 31%. Lítil meiðsli 538 og látnir fimm eða 15,6%. Þegar litið er á landið allt fyrir sama ár eru alvarlega slasaðir 169 og látnir 32.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hversu margir bílar eru í umferðinni í Reykjavík að meðaltali á degi hverjum?``

Mjög erfitt er að áætla hversu margir bílar eru í umferðinni í Reykjavík á degi hverjum. Fyrir liggur að um 80 þúsund bílar fara um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á degi hverjum. Ekki er óvarlegt að áætlað að 60--70 þúsund bílar séu í höfuðborgarumferðinni á degi hverjum.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvaða aðgerðir eru taldar hafa haft áhrif í þá átt að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í borginni?``

Í umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var á Alþingi hinn 29. apríl 2002 eru settar fram ýmsar tillögur í því skyni að auka umferðaröryggi. Eiga þær við um þéttbýli jafnt sem dreifbýli. Ég mun ekki fjalla nánar um þessar tillögur hér en vísa til ítarlegrar umfjöllunar í skýrslu starfshóps um umferðaráætlunina en henni hefur þegar verið dreift á Alþingi og einnig má nálgast hana í dómsmrn.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég þó sérstaklega nefna að eitt af því sem leitt hefur til fækkunar banaslysa og alvarlegra slysa í Reykjavík er sú stefna að lækka hámarkshraða í íbúðahverfum, svokölluð 30 km svæði. Þau hafa verið vel afmörkuð. Settar hafa verið hraðahindranir þar sem ástæða hefur verið talin til og það hefur haft umtalsverð áhrif á slysahættu, en hv. fyrirspyrjandi nefndi einmitt þessi atriði. Áberandi er að á allra síðustu árum hafa þau banaslys sem skráð eru í Reykjavík átt sér stað á þjóðvegum í þéttbýli eða í jaðri þess þar sem leyfður hámarkshraði er á bilinu frá 60--90 km á klukkustund. Þá má einnig nefna tæknivædda löggæslu eins og t.d. löggæslumyndavélar við ljósastýrð gatnamót í borginni. Brýnt er að sífellt sé haldið uppi öflugu og skilvirku eftirliti lögreglu m.a. til þess að sporna við óhóflegum ökuhraða, ölvunarakstri og vanhöldum á bílbeltanotkun.

Að lokum vil ég nefna að gerðar hafa verið talsverðar lagfæringar á gatnakerfinu samanber mislæg gatnamót á Höfðabakka og einnig á Réttarholtsvegi. Fleiri atriði væri ástæða til að nefna hér en ég sé að tími minn er búinn. En þetta eru svo sannarlega verkefni sem við þurfum að halda vel utan um.