Umferðarslys í Reykjavík

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:47:27 (2490)

2002-12-11 15:47:27# 128. lþ. 52.5 fundur 365. mál: #A umferðarslys í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka dómsmrh. þessi svör en ástæða fyrirspurnarinnar er kannski ekki síst sú, af minni hálfu, að draga fram í dagsljósið að umferðin í Reykjavík er ekki eins hættuleg og menn gætu ímyndað sér. Hér er mestöll umferðin og flest fólkið. Af heildarfjölda slysa í slysaskrá teljast umferðarslys vera um 13% en íþróttaslys um 11%. Munurinn er þó sá að fæst íþróttaslys eru alvarlegs eðlis en mörg umferðarslys eru það. Til þess að hægt sé að mæta markmiði heilbrigðisáætlunar um 25% fækkun banaslysa og örorku vegna umferðarslysa á næstu átta árum þarf verulega að taka til hendinni og ríki og borg verða að stilla saman strengi sína.

Ég tel miklu skipta að þingmenn Reykjavíkurkjördæmis séu með í ráðum þegar vegafé er skipt og að stórframkvæmdir í vegamálum hér eigi að hafa forgang fram yfir flest annað því að hér er fólkið flest. Ég fagna auðvitað áhuga dómsmrh. á þessum málaflokki og veit að hún mun fylgja þessu máli eftir.

Á höfuðborgarsvæðinu eru margar stofnbrautir þar sem óhappa- og slysatíðni er allt of há og óviðunandi. Það er því full þörf á því að ríkið sinni skyldum sínum gagnvart höfuðborginni í vegamálum. Á forræði dómsmrh. eru hins vegar þættir sem lúta að umferðarmálum í víðum skilningi og augljóslega þarf að standa vel í ístaðinu ef takast á að fækka umferðarslysum. Einnig þar þurfa þingmenn að láta sig málið varða og ráðherra að leggja sig fram um að hafa samráð við þá því að markmiðinu um fækkun banaslysa í umferðinni verðum við að ná í sameiningu.