Umferðarslys í Reykjavík

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:49:23 (2491)

2002-12-11 15:49:23# 128. lþ. 52.5 fundur 365. mál: #A umferðarslys í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda og vil minna á að sérstök framkvæmdastjórn hefur verið skipuð til að fylgjast með framkvæmd umferðaröryggisáætlunar og það verður að sjálfsögðu haft samráð við hv. þingmenn. Þá vil ég líka minnast þess að margvíslegar lagabreytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum sem munu hafa mikil áhrif að mínu mati á bætt umferðaröryggi.

Varðandi höfuðborgina sérstaklega er ástæða til að nefna margvíslegar aðgerðir sem lögreglan í Reykjavík hefur gripið til. Nú stendur t.d. yfir átak gegn ölvunarakstri sem skilað hefur ótvíræðum árangri en ölvunarakstursmálum hefur fækkað um helming milli áranna 2001 og 2002 vegna aukins eftirlits.

Ég vil jafnframt nefna átaksverkefnið ,,Slysalausi dagurinn`` sem haldið er árlega og hefur heppnast afar vel. Lögreglan hefur lagt mikla áherslu á að auka umferðarlöggæslu í höfuðborginni og hefur málum sem rekja má til frumkvæðisvinnu lögreglumanna farið fjölgandi. Ég hef trú á því að aukið umferðareftirlit eigi þátt í því að ekki er hægt að greina aukningu umferðarslysa í höfuðborginni á síðustu árum. Þeim virðist heldur fækka þrátt fyrir gífurlega fjölgun bifreiða og fólksfjölgun sem auðvitað hefur stuðlað að aukinni umferð. En við þurfum að halda áfram á sömu braut því að umferðarslysin taka allt of dýrmætan toll af samfélagi okkar.