Réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:51:12 (2492)

2002-12-11 15:51:12# 128. lþ. 52.4 fundur 340. mál: #A réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Á undanförnum missirum hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að auka öryggi á Reykjanesbraut. Ég vil nefna þar í fyrsta lagi ákvörðun um að tvöfalda brautina. Í gær var einmitt skrifað undir samning við verktaka um 1. áfanga og er það vissulega mikið öryggisatriði til framtíðar litið.

Í annan stað nefni ég mjög jákvætt framtak þriggja sýslumannsembætta um samstarf með mjög aukinni og sýnilegri löggæslu í eftirliti á Reykjanesbrautinni. Samkvæmt upplýsingum mínum benda fyrstu kannanir til þess að þær hafi skilað jákvæðum árangri enda er eftirlit lögreglunnar á Reykjanesbrautinni afskaplega sýnilegt.

Í þriðja lagi nefni ég aðgerðir Vegagerðarinnar, svonefndar vegaxlir sem felast í því að Vegagerðin hefur látið bera varanlegt slitlag á vegaxlir meðfram Reykjanesbrautinni og afmarkað þær með brotinni línu frá meginakbrautinni. Þetta er gert í því skyni að beina þeim bílstjórum sem kjósa að aka hægar yfir á þessar vegaxlir og hleypa með þeim hætti þeim fram úr sem kjósa að aka hraðar. Tilgangurinn er augljós, að reyna að koma í veg fyrir hinn hættulega framúrakstur sem hefur valdið svo sorglega mörgum slysum.

Þetta eru allt afskaplega jákvæðar aðgerðir en ég dreg sérstaklega fram þá síðastnefndu, þessar vegaxlir sem ég lýsti áðan. Ég tel að þær skili sér, og ökumenn sem oft aka eftir Reykjanesbrautinni eru að læra á að nýta sér þær og eru farnir að tileinka sér að hleypa hraðskreiðari bílum fram úr með því að víkja sér út á vegaxlir.

Nú hafa kviknað ýmsar spurningar í tengslum við þetta, þ.e. um réttarstöðu þeirra bílstjóra sem víkja út á vegaxlirnar. Í rauninni má segja að vegaxlirnar séu ekki vegur en samt notaðar eins og venjulegur vegur, settar þannig upp og til þess ætlast að menn noti þær í rauninni eins og hálfveg. Því er eðlilegt að spyrja: Hver er réttarstaða þeirra bílstjóra sem nýta sér þessar axlir hvað varðar tryggingaþátt og ekki síst gagnvart umferðarlögum? Það er mjög mikilvægt að hafa réttarstöðu ökumanna á þessum vegöxlum alveg á hreinu vegna þess að opinber stjórnsýsla beinir í rauninni umferð inn á þessar brautir. Spurningin snýst kannski um hvort litið sé á öxlina sem veg eða hvort menn aki utan vegar og hver hin eiginlega réttarstaða sé hjá þeim bílstjórum sem þarna fara. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh.