Réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:54:24 (2493)

2002-12-11 15:54:24# 128. lþ. 52.4 fundur 340. mál: #A réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:54]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Spurningin sem hv. þm. leggur fram er nokkuð víðtæk en ég mun leitast við að útskýra réttarstöðuna samkvæmt ákvæðum umferðarlaganna og mun því ekki fara út í mögulega túlkun tryggingafélaga vegna tjónsuppgjörs. Mig langar til að nota þetta tækifæri og taka undir með hv. þingmanni um hversu vel hefur tekist í átaki margra aðila að bæta og efla umferðaröryggi á Reykjanesbrautinni.

Hér verður að hafa í huga skilgreiningar umferðarlaga og reglugerða sem settar eru samkvæmt lögunum. Rétt er að nefna að hugtakið vegöxl eða vegaröxl er sem slíkt ekki skilgreint í skilgreiningarákvæði 2. gr. umferðarlaga eða í reglugerðum settum samkvæmt umferðarlögum. Þó má finna þá skýringu á hugtakinu í 11. gr. umferðarlaga að hér sé um að ræða þann hluta vegar sem liggur utan akbrautar. Hugtakið ,,akbraut`` er aftur á móti skilgreint í 2. gr. laganna en þar er um að ræða þann hluta vegar sem ætlaður er fyrir umferð ökutækja. Hugtakið vegur er skilgreint í 2. gr. sem vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar sem notað er til almennrar umferðar en eins og ég nefndi áðan er vegöxl sá hluti vegar sem liggur utan akbrautar og skilgreinist sem slík.

Af skilgreiningum sem ég rakti má ráða að sá ökumaður sem fer út af akbraut og út á vegöxl ber ríkari varúðarskyldu þegar hann svo færir ökutæki sitt aftur af vegöxl og inn á akbrautina. Þetta má leiða af ýmsum meginreglum umferðarlaga um umferðarreglur fyrir ökumenn. Ákvæði 2. mgr. 25. gr. umferðarlaga mælir m.a. fyrir um það að ef ökumaður ætlar að aka út á veg af vegöxl skal hann veita umferð í veg fyrir leið hans forgang. Er því ljóst samkvæmt meginreglum umferðarlaga að ökumaður sem ekur eftir vegöxl ber annars vegar ríka varúðarskyldu og ábyrgð vegna umferðar gangandi vegfarenda sem og ríka ábyrgð og varúðarskyldu gagnvart þeirri umferð sem fram hjá fer á akbraut. Ökumaður sem fer fram úr bifreið á akbraut eftir að bifreiðinni sem farið er fram úr er vikið til hliðar út í vegöxlina ber vitaskuld einnig ábyrgð samkvæmt almennri varúðarreglu umferðarlaga sem og meginreglum þeim sem gilda um framúrakstur. Gangandi vegfarandi á vegöxl ber einnig ábyrgð samkvæmt 2. mgr. 11. gr. umferðarlaga.

Af skilgreiningum umferðarlaga er ljóst að vegöxl er fyrst og fremst skilgreind sem öryggissvæði fyrir ökutæki sem þarf að stöðva, t.d. vegna bilunar, en vegöxl er ekki aksturssvæði sem ætlað er til aksturs langtímum saman líkt og er með akbraut. Vegöxl er ekki aksturssvæði þar sem ökumaður á að eiga von á komandi umferð aftan frá. Vegöxl er einnig skilgreind sem svæði fyrir gangandi vegfarendur og er samkvæmt skilgreiningum umferðarlaganna m.a. skipað á bekk með gangstígum, götuslóðum, vistgötum og bifreiðastæðum svo eitthvað sé nefnt. Um nánari réttarstöðu bifreiðastjóra sem ekur eftir vegöxl er mikilvægt að hafa í huga tilhlítandi yfirborðsmerkingar á vegi samkvæmt reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra.

Í 25. gr. reglugerðarinnar er fjallað um kantlínur akbrautar. Í ákvæðinu er tekið fram að ef um óbrotna kantlínu er að ræða er óheimilt að aka yfir slíka línu nema nauðsyn beri til og skal þá gætt ýtrustu varúðar. Ef um brotna kantlínu er að ræða er heimilt að aka yfir slíka kantlínu enda sé gætt fyllstu varúðar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér munu merkingar á Reykjanesbrautinni sem afmarkar brún akbrautar og vegaxlar vera í formi brotinnar kantlínu. Vegöxl er samkvæmt því sem ég hef nefnt ekki ætluð til aksturs langtímum saman og getur í undantekningartilfellum eingöngu verið aksturssvæði í mjög stuttan tíma í senn, þ.e. í þeim tilfellum þegar ætlunin er að hliðra til og greiða fyrir umferð á akbraut. Það er ákvörðun viðkomandi bifreiðastjóra sem ekur eftir akbraut hvort hann sýnir þá tillitssemi að víkja út á vegöxl og hleypa næsta ökutæki fram úr sér. Ef bifreiðastjóri sýnir þá tillitssemi og víkur út á vegöxl til að hleypa umferð á akbraut fram úr sér ber ökumaðurinn víðtæka varúðarskyldu, bæði gagnvart ökutæki sem stöðvað hefur verið á vegöxlinni sem og gagnvart gangandi vegfarendum. Mætti fleira um þetta segja en ég sé að tími minn er búinn.