Réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:02:20 (2496)

2002-12-11 16:02:20# 128. lþ. 52.4 fundur 340. mál: #A réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil í byrjun þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þm. sem hér lögðu orð í belg. Ég held að það sé alveg ljóst af svörum hæstv. ráðherra sem ég þakka enn og aftur að réttarstaða bílstjóra á vegöxlunum umræddu er mjög óskýr. Það er augljóst að umferðarlög taka mið af vegöxlum í gamalli merkingu, hefðbundinni merkingu, þar sem þær eru ekki notaðar sem akbrautir en taka ekki heldur mið af þeirri notkun sem Vegagerðin hefur beitt sér fyrir og ég vil enn árétta að það er með mjög jákvæðum árangri og áhrifum. Það er því ljóst að miðað við þau svör sem hér koma fram og eins og ákvæði laga eru er réttarstaða bílstjóra á þessum öxlum nokkuð óljós. Það er alveg ljóst að þetta er, má segja, nokkur nýjung og því er mjög mikilvægt að efla fræðslu um það með hvaða hætti eigi að nota þessar vegaxlir, þar á meðal bann við framúrakstri sem er auðvitað vítavert, en ekki síst er mjög mikilvægt að skerpa réttarstöðu þeirra sem vilja nota vegaxlirnar. Lög sem ekki hafa tekið mið af þessari þróun í umferðarmenningu, sem þetta sannarlega er, skapa þessa réttaróvissu og þau mega ekki verða til þess að menn fari að veigra sér við að nota þetta öryggistæki sem vegaxlirnar sannarlega eru. Aðgerðin sjálf má sem sagt ekki spillast vegna ákvæða laganna. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að á þessari réttarstöðu verði skerpt þannig að ökumenn geti áfram notað vegaxlirnar í því skyni sem þær voru reistar til og eru afskaplega mikilvægar fyrir öryggið.