Byggðamál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:41:06 (2509)

2002-12-11 16:41:06# 128. lþ. 52.8 fundur 416. mál: #A byggðamál# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það er sannarlega tilefni til þess að hafa áhyggjur af nýsamþykktri byggðaáætlun. Ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum út af fjárlögum fyrir 2003. Þar er rauði þráðurinn í raun aukin miðstýring og lítill viðurgjörningur við stofnanir og rekstur ríkisins úti á landi. Nægir þar að nefna að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er gjörsamlega skilið eftir í samanburði við hátæknisjúkrahúsin á höfðborgarsvæði. Nægir þar að nefna það sem allir voru sammála um að vantaði í atvinnuþróunarfélögin, verðbætur upp á 20 milljónir. Þess sér hvergi stað. Svona má fara í gegnum þál. lið fyrir lið. Þetta er vissulega áhyggjuefni þrátt fyrir að eitt og eitt verkefni sé í gangi eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Ég vildi að þetta kæmi fram í umræðunni, virðulegi forseti.