Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:11:48 (2514)

2002-12-11 18:11:48# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:11]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er alveg með eindæmum að á hinu háa Alþingi skuli nokkrum dögum fyrir jól vera lagt fram frv. sem gengur út á það að breyta hlutum um næstu áramót. Þetta er sérstaklega dapurt vegna þess að búið er að hafa þó nokkuð langan tíma varðandi það mál sem hér er verið að ræða um. Hér eru nokkur atriði sem tengjast ekki áramótunum og hér er eina ferðina enn brugðið á þann leik gagnvart hinu háa Alþingi að fella inn í frv. ýmiss konar efni sem á ekki þar heima en er látið fljóta með og þingheimi sagt að það verði að afgreiða þessi mál fyrir áramót, annars skapist hér vond staða.

Frv. sem um ræðir snýr að útflutningsskyldu, þ.e. að tryggja þann anda laganna sem settur var á sínum tíma að menn geti ekki keypt sig frá útflutningsskyldum með því að kaupa greiðslumark. Ég er að mörgu leyti sammála því sem þar kemur fram. Ég held að þar hafi ekki tekist alveg til eins og ætlunin var. Hins vegar er spurning hvort afgreiða þyrfti þetta mál með þessum hraða því það sem ég mótmæli hér eru vinnubrögðin. Það er ekkert að því að landbrh. komi fram með frv. og það fái hina eðlilegu þingmeðferð en það er greinilegt á þessu að það verður að afgreiða þetta mál á tveimur sólarhringum. Ég skil ráðherra svo að það sé stefna ríkisstjórnarinnar. Er það ekki rétt, herra forseti, að frv. sé lagt fram með því fororði af hálfu hæstv. ráðherra að stefna að afgreiðslu fyrir þinghlé?

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur skilið hæstv. ráðherra þannig.)

Það er gott, hæstv. forseti, að það komi fram. Við vitum að slíkir hlutir geta gerst, að það komi fram efni sem menn hafa ekki alveg áttað sig á og stjórnarandstaðan hefur oft og tíðum líka greitt götu slíkra mál ef ekki er um að ræða sérstakan pólitískan ágreining. Auðvitað er frv. og uppbygging þess náttúrlega ekkert annað en að hér er verið að plástra þetta ónýta landbúnaðarkerfi sem hefur svo sem verið gert að umræðuefni áður en ég ætla ekki sérstaklega að fjalla um hér.

Það er annað atriði í þessu frv. sem tekið er á í 1. gr., það að útflutningsuppgjör skal tryggja með lögveði í framleiðslu framleiðenda. Rökin fyrir þessu eru að komið hefur fyrir að sláturleyfishafar hafa orðið gjaldþrota og þeir hafi ekki getað staðið skil á þessum greiðslum sem hefur leitt til þess að kjötinu hafi verið dembt á innanlandsmarkað öllum til tjóns. Það má vel vera að þetta sé hlutur sem þarf að skoða betur. Hins vegar er engin brýn nauðsyn til að afgreiða þetta í því frv. sem hér um ræðir.

[18:15]

Meginefni frv., það sem þarf að ræða um, er sú stefna sem var afgreidd í maí í vor með lögum nr. 101/2002, lögum um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er öll hugmyndafræðin á bak við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Nú man ég ekki hvað hæstv. landbrh. sagði í vor en ég efast ekki um að hann hafi farið fjálgum orðum um það hvílíkt framfaraskref það væri að taka hér upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Ég hugsa að ég þurfi ekki að fletta upp í þingtíðindum til að fara nokkuð nærri ummælum hæstv. ráðherra.

Því næst var framkvæmd þessa máls frestað. Beiðni Bændasamtakanna var að í stað þess að lækka beingreiðslurnar um 2,5%, sem áttu að renna sérstaklega til þessara mála, þ.e. dilkakjöts í hinni gæðastýrðu framleiðslu sem var meginhugmyndafræðin á bak við það frv., yrði tilfærsla. Það átti ekki að lækka greiðsluupphæðina heldur átti að verða tilfærsla. Það átti að lækka beingreiðslurnar um 2,5% núna um næstu áramót og verja því sem sparaðist til að styrkja gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Nú er það svo, herra forseti, að það má vel vera að við eigum einfaldlega að fallast á að við séum of sein með þetta allt og úr því að menn hafi ekki komið þessu á laggirnar í ár sé rétt að reyna að greiða götu þessa máls á hinu háa Alþingi, annars muni beingreiðslurnar lækka um næstu mánaðamót og fjármagn ganga til gæðastýringarkerfis sem uppbætur á verk sem ekki er búið að hrinda í framkvæmd. Ég vil alls ekkert fullyrða um hvort það yrði ekki hv. landbn. til framdráttar að skoða málið út frá því og greiða veg málsins þannig að menn lendi ekki í vandræðum um næstu mánaðamót.

Það sem maður furðar sig á er að jafnvel þó að frestað sé ákvæðum sem taka áttu gildi um þessi áramót þykist ég vita að þessu verði öllu hrint í framkvæmd. Það er gert ráð fyrir að hætta við lækkun beingreiðslnanna á næstu árum. Það er sem sagt ekki bara verið að tala um þessi áramót heldur er hugsað fram í tímann, tekin áramótin 2004/2005. Á öllum þessum árum átti þetta innbyrðis hlutfall að breytast um 2,5%. Ég vil taka fram að í sjálfu sér er ekki um breytta greiðslu ríkisins til bænda að ræða heldur tilfærslu innan landbúnaðarkerfisins og samnings ríkisvaldsins við Bændasamtökin.

Mér finnst miður, herra forseti, að málið skuli bera að með þessum hætti. Það hefði verið miklu farsælla ef landbrh. hefði haft þá stjórn á ráðuneyti sínu og hugsunum að geta lagt málið fyrr fyrir þingið. Við hefðum þannig bæði getað tekið efnislega umræðu og ákvarðanir um alla þá þætti sem hér eru. Það gæti verið ágreiningur um eitthvað af þessum þáttum. Ég er ekki alveg viss að allir bændur verði til að mynda ánægðir með þessa breytingu á útflutningsskyldunni, þ.e. 0,7% ærgilda mörk. Ég gæti vel trúað því að einhverjum finnist að sér höggvið með því. Hins vegar er það alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að hugsunin var sú að menn keyptu sig frá, ef svo má að orði komast, útflutningsskyldunni með því að selja frá sér eða fækka fé.

Ég mundi, herra forseti, leggja til að reynt yrði að koma til móts við hæstv. landbrh. í þessum efnum og nefndin reyndi að taka þetta mál til hraðrar afgreiðslu. Það er ljóst, af því að hér er um að ræða landbúnaðarmál, að það er ekki nóg að koma bara með frv. og segja að það sé lagt fram eftir pöntun Bændasamtakanna. Við höfum séð of mikið af því af hálfu ríkisstjórna þeirra flokka sem mynda núv. ríkisstjórn. Það er sjálfsagt að reyna að kalla eftir umsögnum eins og hægt er á þessum skamma tíma og ég vil benda á að bæði Neytendasamtökin, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa sterkar skoðanir á landbúnaðarmálum. Svo hefur alltaf verið. Þetta mál er reyndar ekki eitt af stóru málunum, ef svo má að orði komast. Hér er fyrst og fremst verið að plástra útfærsluna á núverandi samningi.

Þrátt fyrir það, herra forseti, sé ég í sjálfu sér ekki ástæðu til að hið háa Alþingi reyni að afgreiða núna fyrir jól annað úr þessu frv. en það sem beinlínis ber brýna nauðsyn til. Ég mundi leggja til, herra forseti, að ráðherra sætti sig við þá málsmeðferð í hv. landbn. að skoðað yrði hvaða þætti frv. brýnt er að lögfesta núna fyrir áramót. Menn gæfu sér síðan betri tíma eftir áramót til að fara yfir aðra þætti frv. og jafnvel fleira eins og oft vill nú verða þegar menn opna löggjöf af þessum toga. Þetta er náttúrlega mjög óvanalegt sem hér er gert. Löggjöfin sem verið er að breyta var sett sl. maí. Hér er ekki um að ræða gamalt mál. Það er verið að taka upp nýsett lög með þessum hætti. Ég tel ekki ástæðu til að kveða fastar á um það en svo að ákveða hvernig háttað verði beingreiðslum, þ.e. að þær verði þá ekki lækkaðar á næsta ári. Menn geta síðan skoðað hvernig þeir vilji haga þessari hugmyndafræði í kjölfarið.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að lengja málið í sjálfu sér. Ég ætla ekki að fara út í almenna landbúnaðarumræðu. Hins vegar get ég vitaskuld ekki stillt mig um að benda á að það eru ekki góð vinnubrögð að leggja málið fram með þessum hætti. Þetta sýnir okkur kannski enn frekar í hvers konar ógöngum kerfið er. Það getur ekki unnið betur og skilvirkar. Ég hef bent á það nokkuð oft að vandamál landbúnaðarins hafi síður en svo verið leyst af hálfu núv. ríkisstjórnar, eins og menn sjá á staðreyndum um matarverð hér á landi í samanburði við matarverð í öðrum löndum. Á Íslandi er verð á matvælum hærra en í flestum öðrum löndum. Þó er hér einn mesti stuðningur ríkisvaldsins við landbúnað, með beinum eða óbeinum hætti, í heiminum. Samt eru bændur hér ein fátækasta stétt af öllum stéttum. Ég hef oft sagt að kerfinu sé um að kenna. Bændunum er ekki um að kenna. Stjórnmálamönnunum er um að kenna vegna þessa kerfis sem þeir geta ekki brotist út úr.

Ég hef enga sérstaka trú á að núv. landbrh. og ríkisstjórnin geri einhverjar breytingar á þessum þáttum eftir áramót. Sennilega verður nú að koma til ný ríkisstjórn til að þessi mál verði stokkuð upp í heild sinni. Samt er ekki ástæða til annars en að menn reyni að greiða götu þessa tiltekna máls þótt seint fram komi. Ráðherrann verður að taka þeirri gagnrýni að þetta eru ekki góð vinnubrögð gagnvart hinu háa Alþingi.