Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:23:44 (2515)

2002-12-11 18:23:44# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hinn gamli kratasöngur er kominn í þennan sal þegar hv. þm. kemur hér inn. Söngurinn sá er auðvitað undirliggjandi í Samfylkingunni, sá gamli áróður eykst, þ.e. að taka matarverðið út. Í eftirminnilegri snerru okkar á milli bað ég hv. þm., prófessorinn, að fara upp í háskóla og reikna. Nú veit ég ekkert hvað hann hefur gert um helgina, hvort hann er farinn að reikna. En það verður að segja satt í öllum málum. Það er mikilvægt að segja satt, vera ekki að plata fólk og taka ekki eina atvinnugrein út úr í umræðunni.

Það liggur fyrir að matarverð hér sker sig ekkert frá öðrum hlutum eins og ég fór yfir fyrir helgina. Landbúnaðarafurðir eru hér ekkert dýrari hlutfallslega en svo margt annað á Íslandi. Ég spurði þá: Hver blandar kókið? Hver bakar brauðið? Þannig væri hægt að halda áfram. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í þá umræðu hér og nú.

Hv. þm. er eins og Kató gamli. Hann á lokasprett í hverri ræðu sem er þessi áróður sem hæfir ekki svo mætum prófessor sem hefur alla burði til að leggja þessa heildarútreikninga fram. Ég mundi treysta honum til þess ef hann tæki pólitíkina út úr hinni hliðinni á sér. Hv. þm. verður að byrja á því.

Svo get ég tekið undir það með honum að það er vont að koma með mál svona seint og gera kröfu um að þau séu afgreidd. Það var í vor að ósk kom frá bændunum um að endurskoða samninginn. Landbn. tók undir það. Þetta kemur seint á mitt borð og þess vegna kem ég allt of seint með þetta fyrir þingið. Ég tek undir það.

Ég segi: Landbn. metur auðvitað stöðuna. Hún þarf þess vegna ekkert að afgreiða málið í heild sinni (Forseti hringir.) og getur skoðað, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) hvort fara eigi rólega í það.