Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:43:07 (2520)

2002-12-11 18:43:07# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir það sem þeir hv. þm. hafa sagt sem hafa talað hér á undan mér að það er furðulegt að fá þetta frv. hingað á síðustu dögum þingsins með þeim skilaboðum að það verði að samþykkja fyrir þinghlé. Öllum reglulegum fundum í landbn. var lokið þegar frv. barst okkur í hendur og ég verð að segja að ef ég les þetta frv. rétt sé ég ekki nokkrar forsendur fyrir því að samþykkja nema þá einhvern örlítinn hluta af því sem hér stendur. Hitt má bíða og þarf auðvitað að kanna miklu betur.

Það er líka annað sem mig langar að minnast á hérna. Hæstv. landbrh. viðhafði hér fleyg orð í síðustu viku sem komust í sjónvarpið, hvorki meira né minna: Hver bakar brauðið og hver blandar ölið o.s.frv.? Svo var þriðja tilvitnunin þessi: Hver kennir í háskólanum? Ég vil minna á að þetta er mjög óheppileg samlíking því að háskólakennslan á Íslandi er mun ódýrari en í flestum öðrum nálægum löndum svo að þar varð hæstv. ráðherra svolítið á í messunni þegar hann fór að ... (Landbrh.: Ég sagði: Hver reiknar í háskólanum?) taka þá samlíkingu. (Landbrh.: Hver reiknar í háskólanum? Ég tók ekki að kenna, heldur reikna.) Eru það einhverjir sérstakir sem reikna aðrir en þeir sem kenna, hæstv. landbrh.? Mér er ekki kunnugt um það. Ég held að ágætir háskólakennarar á Íslandi séu náttúrlega alltaf meira og minna að reikna. Allir, þótt þeir kenni málfræði.

[18:45]

Frv. gerir m.a. ráð fyrir því að 29. gr. gildandi laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verði breytt á þann veg að sauðfjárframleiðendur geti einungis komist hjá útflutningsskyldu með því að fækka fé, en ekki með því að kaupa greiðslumark og miða á við það að undanþegnir útflutningi geti einungis verið þeir sem hafi 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks, eins og það er skráð í greiðslumarksskrá 1. janúar 2002. Ég las frv. fram og aftur vegna þess að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum, ég hélt þetta væri prentvilla.

Ég tek undir með öðrum þeim hv. þm. sem hér hafa talað að þetta hlýtur að vera ef ekki prentvilla þá einhver hugsanavilla því ég held að svona lagað sé ekki hægt. Auðvitað hafa íslenskir bændur, sem eru náttúrlega af veikum mætti að reyna að bjarga sér í þeirri afar erfiðu stöðu sem þeir eru í, a.m.k. hluti af þessum 190 sem eru í þessu 0,7% kerfi, reynt að kaupa sig frá útflutningsskyldunni með því að bæta við ærgildum. Þeir hafa gert það auðvitað allt þetta ár meira og minna, vegna þess að hver átti von á þessu?

Ég get náttúrlega engan veginn stutt þetta mál nema þessari dagsetningu verði fyrst, helst áður en þetta kemur í nefnd, breytt. (Gripið fram í: Annars breytum við því í nefndinni.) Já, annars breytum við því í nefndinni en það kemur ekki til greina að samþykkja þetta óbreytt.

Ég verð samt að harma að þessi regla skuli vera á undanhaldi því mér fannst hún skynsamleg og mér hefði einkum og sér í lagi fundist hún skynsamleg núna þegar við stöndum frammi fyrir kjötfjallinu og við vitum að það er ekkert einfalt mál að flytja út kjöt frá Íslandi í stórum stíl á því verði sem við teljum okkur þurfa að fá. Því miður hefur það ekki reynst vera svo og ég tel ekki útlit fyrir að það breytist mikið á yfirstandandi ári, þó að eitthvað hafi kannski smávegis rofað til, þá held ég að það sé ekkert sem máli skiptir.

Við munum taka þetta til nákvæmrar skoðunar í nefndinni og það kemur náttúrlega ekki til mála að afgreiða þetta, hvorki fyrr né síðar, nema þessari dagsetningu verði breytt.

Hér er einnig talað um að: ,,Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein sem felur í sér að útflutningsuppgjör eða útflutningsgjald, sem sláturleyfishöfum ber að greiða ef þeir flytja ekki út lögboðinn hluta afurða sinna eða semja ekki við aðra sláturleyfishafa um að flytja út þann hluta, verður tryggt með lögveði í framleiðslunni sem ásamt dráttarvöxtum gengur í tvö ár frá gjalddaga á undan öðrum skuldbindingum framleiðandans.``

Þetta eru auðvitað ágætisviðbót inn í lögin. Ég verð að segja það. Goða-dæmið frá því í fyrra sýndi okkur náttúrlega í hversu vandræðalegri stöðu við vorum og hversu varnarlaust kerfið var gagnvart þeim bolabrögðum sem Goði beitti á markaðnum þegar hann tók útflutningskjötið og beindi því inn á markaðinn. Sumir segja að það hafi verið boðið á of lágu verði. Ég er nú kannski ekki alveg viss um að það hafi verið boðið á svo lágu verði, en markaðurinn var fylltur af því og sjálfsagt hefur það verið á lægra verði til kaupmanna en nýtt kjöt. Þetta varð náttúrlega upphafið að þeim vanda sem við stöndum í núna varðandi lambakjötsbirgðir í landinu, þó auðvitað komi fleira til sem hefur bæst við eins og við ræddum hér um daginn með kjúklingana og svínin og það hefur náttúrlega ekki bætt úr.

Ég held samt að eitt það alversta sem hefur riðið yfir íslenska kjötmarkaðinn að undanförnu, bæði bændur og búalið og ekki síður ríkisvaldið og yfirmenn, t.d. stjórn Bændasamtakanna, sé þetta Goða-mál, því það var einhvern veginn eins og allir stæðu varnarlausir og ekkert væri hægt að gera. En nú er alla vega verið að reyna að setja undir þennan leka og ég fagna því, þó mér finnist ekki að afgreiða þurfi það korteri fyrir jól, við gætum athugað þetta betur.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Í fyrravor vorum við í miklu stressi við að afgreiða ný lög um hagræðingu eða gæðastýringu í landbúnaði. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði að haldnar voru margar ræður um hversu bráðnauðsynlegt þetta væri fyrir sauðfjárræktina í landinu, að samþykkja þær lagabreytingar. Það voru nú ýmsir efins. Þó að samtök sauðfjárbænda styddu þetta, þá voru miklar efasemdir hjá sauðfjárbændum víða á landinu og mikill mótþrói.

Ég hugsa að það hafi aldrei nokkurn tímann verið haft jafnmikið samband við þingmenn út af nokkru máli og þessu. Að minnsta kosti hef ég ekki upplifað það síðan ég kom á þing. Og eitt af töfrabrögðunum í þessu var að lækka beingreiðslurnar og þeir fjármunir sem þannig spöruðust áttu að renna til greiðslu sérstaks álags á framleitt dilkakjöt á sama hátt og uppkaupaálag samkvæmt 4. mgr. 38. gr. Þetta fannst mörgum, sem komu t.d. til að tala við okkur í landbn. og ég tala nú ekki um þeim sem hringdu í okkur heim jafnvel, að væri síst til þess fallið að draga úr offramleiðslu á kindakjöti. Það var blásið á þau rök hérna í fyrra en eitthvað virðast menn hafa áttað sig því nú á að stinga þessu hér inn tveim dögum fyrir þinglok og samþykkja að beingreiðslur verði óbreyttar á árinu 2003 og kemur því ekki til greiðslu sérstaks álags á framleitt kindakjöt, en S-liður ákvæðis til bráðabirgða fellur brott. Og eru menn þá komnir algjörlega heim aftur.

Einhvern veginn finnst mér af því hérna er vísað í að bændur hafi kannski ekki alveg skilið anda laganna í 0,7-reglunni, að e.t.v. hafi einhverjir, jafnvel einhverjir í hæstv. landbrn., ekki skilið alveg anda laganna þegar við vorum að afgreiða þetta mál. Kannski það hafi runnið upp fyrir þeim núna þegar allt var komið í eindaga að ekki hafi verið mjög skynsamlegt að lækka beingreiðslur með þessum hætti til að borga svo út á allt framleitt kindakjöt í landinu. Mér finnst það svífa yfir vötnunum að kannski verður þetta nú bara óbreytt til frambúðar. Það skyldi þó aldrei lukka til.

En ég treysti á að við náum samstöðu um það í landbn. að tína út úr frv. það sem nauðsynlega þarf að lögfesta fyrir áramót, geyma hitt til betri yfirferðar seinna og í trausti þess ætla ég ekki að segja meira um þetta mál að sinni.