Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 18:55:04 (2521)

2002-12-11 18:55:04# 128. lþ. 53.1 fundur 444. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla, beingreiðslur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 128. lþ.

[18:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, er eins og fram hefur komið og verið gagnrýnt, seint fram komið hér rétt fyrir jól. Það er þó rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum sem mikilvægt er að séu könnuð í hv. landbn. því ekki kom hæstv. landbrh. mikið inn á það í framsöguræðu sinni.

Hver er staðan í sauðfjárræktinni í dag? Hvernig er birgðastaðan? Hvernig hefur gengið með sölu á dilkakjöti í ár miðað við þær forsendur sem voru uppgefnar? Hvernig er sú staða?

Þá þarf líka að velta fyrir sér hver teknastaðan er. Hvernig er tekjustaða bænda og rekstrarstaða búanna?

Þetta þarf allt að skoða áður en við förum að taka einhverja skyndiákvörðun um framleiðslustjórnun og breytingu á framleiðslustjórnun á örfáum klukkutímum. Staða mála er miklu alvarlegri en svo að það sé Alþingi sæmandi.

Ég vil fá nákvæma útlistun á því hver staðan á markaðnum er. Hvernig er með útflutningsmálin? Hver verður líkleg útflutningsskylda í ár?

Hæstv. landbrh. breytti með pennastriki útflutningsskyldunni sem skyldi reikna með við slátrun í haust. Ég efast um að hann hafi haft neinar forsendur fyrir þeirri breytingu í sjálfu sér, bara óskhyggjuna eina. Að minnsta kosti er nauðsynlegt að fara í gegnum það. Hver yrði þá útflutningsskyldan á næsta ári að óbreyttu kerfi og óbreyttri stöðu? Þetta þarf allt að fara mjög vandlega í gegnum.

Þá þarf líka að skoða vandlega hvers konar framleiðslustýringarkerfi samræmist best þeim markmiðum sem samningurinn um sauðfjárframleiðslu kvað einmitt á um, það var að halda jafnvægi á milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða. Hvaða framleiðslukerfi eða stýringarkerfi hentar þar best? Bændur segja mér að þessi 0,7-regla sem hér hefur verið rædd og talað er um að afnema helst aftur fyrir sig, sé kannski það kerfi sem nú sé þó í gangi sem helst virki til þess að draga úr framleiðslu, en jafnframt að efla hagkvæmni í búskapnum með þeirri aðferð. Mér finnst mjög athyglisvert og hlusta á það.

Að minnsta kosti er ljóst að við förum ekki á nokkrum síðustu klukkutímum þings fyrir jól að grípa til einhverra stýringaraðgerða út í bláinn án þess að það sé vel grundað og mönnum ljóst hver þróunin er, hver staðan er og hverjar framtíðarhorfur eru varðandi atvinnugreinina, framleiðslu hennar og markaðsmál og tekjur fyrir þá sem hana stunda.

Það er vilji Alþingis að mínu mati að Ísland sé byggt, að búseta sé sem víðast um landið og gegnir sauðfjárræktin lykilhlutverki einmitt hvað búsetu varðar og vörslu og meðferð á landi og auðlegð þess á margan hátt, en ekki bara hvað lýtur að framleiðslu sauðfjárafurðanna. Hér má því ekki hrapa að með neinum óþarfa hraða.

Ég vil líka spyrja t.d. hæstv. ráðherra hvað líður úthlutun á því greiðslumarki sem ætlunin var að úthluta í byggðastyrkjandi aðgerðir og Byggðastofnun átti að úthluta. Ég held að komið sé á annað ár eða meira, farið að styttast í tvö ár, síðan þessi úthlutun átti að liggja fyrir en ekkert gerist enn.

Virðulegi forseti. Ég tel því að frv. þurfi mjög vandaða meðferð í hv. landbn. Þetta er miklu stærra mál en svo, a.m.k. 1. gr., að nokkurt vit sé í eða samboðið Alþingi að hrapa að afgreiðslu þess. Þær upplýsingar sem ég hef nefnt um stöðu búgreinarinnar, um markaðsstöðuna, um tekjur bænda og framtíðarsýn, þurfa allar að liggja fyrir og Alþingi að meta áður en það grípur núna inn í með skyndiákvörðunum í framleiðslustýringuna. En þetta verður nánar farið í gegnum í hv. landbn.