2002-12-12 10:44:13# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er heilt ár síðan hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að jafna bæri réttindi og kjör starfsmanna í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna og aðildarfélaga ASÍ. Það er heilt ár á morgun. Yfirlýsinguna gaf hann við gerð samkomulags við aðila vinnumarkaðarins um frestun endurskoðunarákvæða kjarasamninga og þessa yfirlýsingu hefur hæstv. ráðherra nú lesið upp í ræðustóli.

Hvað hefur gerst síðan? Það er ekkert óeðlilegt að menn séu orðnir óþreyjufullir þegar heilt ár er liðið frá því að ráðherra gefur yfirlýsingu eins og þá sem hann las hér upp. Embættismenn hans hafa fundað stíft með fulltrúum ASÍ og ekkert gerist. Tillögur af hálfu ríkisins eru ekki í samræmi við yfirlýsingu ráðherra um framtíðarlausn að mati ASÍ. Þessi framkoma er lítilsvirðing við allt það fólk sem starfar í þágu hins opinbera við hlið annarra ríkisstarfsmanna á sömu launum en með mun lakari kjör.

Það þarf auðvitað að leiðrétta kjör þessa fólks. Bæði er það veikindarétturinn, lífeyrissjóðsréttindin og ýmis önnur réttindi sem þessir starfsmenn hafa lakari en þeir sem vinna við hlið þeirra. Og eins og komið hefur fram munar allt að 55% á verðmæti á lífeyrisréttindum þessara hópa auk ríkisábyrgðarinnar. Aðildarfélagar ASÍ hafa staðið við sinn hluta samkomulagsins. Þeir tóku á sig auknar skyldur við að verða ríkisstarfsmenn þegar lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt og þeir tóku á sig m.a. trúnaðarskyldu, yfirvinnuskyldu og ýmsar aðrar skyldur. Nú er mikilvægt að ráðherra nái ásættanlegri niðurstöðu við fulltrúa ASÍ og standi við það að aðildarfélagar ASÍ fái sambærileg réttindi og nú, ári seinna, er auðvitað orðið tímabært að hann standi við það. Og það er hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á því að niðurstaða náist í þessu máli.