2002-12-12 10:54:46# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sem endranær snýst umræðan um að hæstv. fjmrh. sé ljóti kallinn sem vilji ekki borga (ÁRJ: Það er ekki rétt.) og aumingja verkalýðurinn líði (ÖJ: Þeir eru ekkert aumingjar.) fyrir það.

Að sjálfsögðu er hæstv. fjmrh. hér í umboði skattgreiðenda. Þetta verður allt saman greitt af þjóðinni í heild sinni. Ég vil nefna það að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa vaxið um 120 milljarða á síðustu sex árum, sem eru 5 millj. kr. á hvern einasta ríkisstarfsmann. Þetta er greitt af skattgreiðendum, greitt af 80% þjóðarinnar sem ekki eru opinberir starfsmenn. Þetta er ekkert einfalt dæmi sem við erum að tala um hér.

Ég vil að réttindi manna séu uppi á borðinu, að reiknað sé út hvað hver maður á af réttindum og hversu mikið menn meta t.d. lífeyrisréttindin. Við erum með opinbera starfsmenn í tveimur hópum. Annar hópurinn er í A-deildinni og hinn hópurinn er í B-deildinni. Það er munur á milli þessara hópa, herra forseti. B-deildarfólkið er mikið betur sett, eftir þær launahækkanir orðið hafa undanfarið, en A-deildarfólkið. Síðan er mismunur á milli opinberra starfsmanna í BSRB og hinna sem eru í ASÍ. Það er líka mismunur þar á milli. Að síðustu er líka mismunur á þeim sem eru á almennum markaði og ekki hjá opinberu sjóðunum vegna þess að fólk í almennu sjóðunum býr ekki við ríkisábyrgð á réttindunum eins og opinberir starfsmenn. Ef illa gengur með ávöxtun lífeyrissjóðanna verður að skerða réttindin hjá almennu sjóðunum en ekki hjá hinu opinbera, þá hækkaði iðgjald ríkisins, þ.e. skattgreiðenda, upp í himininn.