2002-12-12 10:56:38# 128. lþ. 54.94 fundur 316#B samræming réttinda opinberra starfsmanna og félaga innan ASÍ sem vinna hjá ríkinu# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[10:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hér tóku þátt í umræðum. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi fyrst og fremst tekið þátt í umræðunni því að hann svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans. Hann fór þess í staða að ræða um viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eins og fleiri hv. þm. hafa gert hér og gert býsna lítið úr. Niðurstaða mín er sú að þessi viljayfirlýsing sé, að mati þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn, einskis virði.

Hér hefur verið talað um að þetta sé samningamál. Það er nefnilega nákvæmlega það sem gerðist. Það var við samningaborðið að þessi yfirlýsing ráðherra var gefin. Hún er hluti af stærri heild, (Gripið fram í.) hluti af samningum. Hún er meira að segja stór hluti af því að samningar náðust fyrir ári síðan. Við erum hér að tala um það sem búið er að ræða. Það sem búið er að semja um.

Hæstv. ráðherra segir: Ég hef ekki svikið nein loforð, viljayfirlýsingin var ekki neitt neitt í raun og veru. Ég hef undir höndum greinargerð frá fulltrúum ASÍ af þessum samningafundum þar sem m.a. hæstv. ráðherra mætti á fyrsta fundinn. Skilningur forseta ASÍ, varaforseta ASÍ og hæstv. fjmrh. á því hvað yfirlýsingin þýddi var þá hinn sami og hvaða vægi hún hefði í því að samningar náðust fyrir ári. Af þessu virðist algjörlega sameiginlegur skilningur.

En er það þannig að þessi túlkun hafi breyst og að orð forseta ASÍ, framkvæmdastjóra ASÍ, varaforseta ASÍ, formanns Eflingar og formanna stéttarfélaga vítt og breitt um landið, séu marklaus? Eru þeir að skrökva? Er hæstv. ráðherra að segja að þessir aðilar, sem hafa farið með þessa viljayfirlýsingu inn í félög sín og kynnt hana, séu bara að segja ósatt?