Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:34:39 (2540)

2002-12-12 11:34:39# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Umdeildustu og erfiðustu mál leiðtogafundarins í Jóhannesarborg vörðuðu m.a. vatnsöflun, fráveitur og hreinlætismál, auk orkumála, sem ekki varð samkomulag um fyrr en á síðasta degi fundarins. Ísland lagði einkum áherslu á tvö atriði í samningaviðræðum fyrir fundinn í Jóhannesarborg: málefni hafsins og orkumál.

Orkumálin voru eitt erfiðasta deilumálið við gerð framkvæmdaráætlunarinnar og voru það síðasta sem samkomulag náðist um. Einkum var deilt um hvort setja ætti töluleg markmið varðandi aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku. Andstaða var meðal voldugustu ríkja heims og þróunarríkjanna við að setja tímasett og töluleg markmið inn í ályktunina. Í lokin náðist fram sátt um að falla frá kröfum um tímasett markmið. Í staðinn var í textanum lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að auka vægi endurnýjanlegrar orku. Það orðalag sem samstaða náðist um er það framsæknasta á alþjóðavettvangi fram til þessa.

Ein meginniðurstaða Jóhannesarborgarfundarins var listi yfir samstarfsverkefni ríkja alþjóðastofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Ísland tekur þátt í einu samstarfsverkefnanna um endurnýjanlega orku og orkunýtni, sem er leitt af Bretum, en meðal annarra samstarfsaðila má nefna Brasilíu og Ítalíu.

Í kynningu á verkefninu á sérstökum fundi kom fram að Ísland hygðist leggja fram þekkingu sína í nýtingu á endurnýjanlegum orkulindum, svo sem jarðvarma og vatnsorku, sem möguleg samstarfsverkefni í þróunarríkjum og er nú unnið að undirbúningi þeirra verkefna.

Mat manna á árangri leiðtogafundarins hefur verið mismunandi. Enginn vafi er þó á því að fundurinn var árangursríkari en leit út fyrir í upphafi hans, að mati flestra þeirra er tóku þátt í undirbúningsfundum fyrir Jóhannesarborgarfundinn.