Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:39:18 (2542)

2002-12-12 11:39:18# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, KF
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það var mjög áhugavert fyrir mig sem þingmann að sækja þessa ráðstefnu í Jóhannesarborg. Þar bar auðvitað hæst umræðuna um fátækt í heiminum, ónothæft drykkjarvatn og skort á hreinlætisaðstöðu, ásamt þeim atriðum sem nefnd hafa verið í umræðunni hér í dag. Íslenskar áherslur hafa einkum lotið að mengun hafsins og orkumálum. Þau ríki sem mest framleiða af olíu og kolum eru ekki sátt við æ háværari kröfur umhverfissinna um að skipta yfir í endurnýjanlega orku, svo sem vatnsorku, jarðvarma, vindorku og sólarorku.

Eins og margir vita eru stórar vatnsaflsvirkjanir víða ekki taldar með í sjálfbærri þróun vegna áhrifa sinna á umhverfið og deildar meiningar eru um það á alþjóðavettvangi hvað teljast vera stórar virkjanir og hvað ekki. Áherslur Afríkuríkja á aðgang að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu eru skiljanlegar öllum, líka okkur Íslendingum sem höfum tekið ómenguðu drykkjarvatni sem sjálfsögðum hlut.

Það er talið að 2,4 milljarðar manna í heiminum búi við óviðunandi hreinlætisaðstöðu og að 505 milljónir búi í löndum þar sem vatnsskorts gætir. Um þetta var rætt á ráðstefnunni.

Rifjum aðeins upp viðbröð við ráðstefnu í Ríó fyrir tíu árum. Að henni lokinni sögðu margir að ekki hefði náðst neinn árangur og ekki hefði náðst fram það sem menn hefðu vænst. En okkur má flestum vera ljóst að áhrifa þeirrar ráðstefnu hefur gætt. Hún hefur haft mikil áhrif á afstöðu manna til umhverfismála í heiminum á þeim tíu árum sem liðin eru og ég efast ekki um að ráðstefnan í Jóhannesarborg mun á sama hátt skilja eftir sig varanleg merki til góðs.