Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:45:49 (2545)

2002-12-12 11:45:49# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, GAK
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Stuðningur okkar Íslendinga við fátækar þjóðir gæti auðvitað verið meiri en hann er en einkum held ég að við gætum miðlað þeim af þekkingu okkar. Við getum miðlað þjóðum af þekkingu okkar varðandi orkunýtingu, bæði varðandi rafvirkjanir og jarðhitaorkunotkun, og við getum einnig miðlað þjóðum af þekkingu okkar á veiðitækni. Ég tel hins vegar illa farið ef við erum alltaf í því hlutverki, herra forseti, að vera að miðla öðrum þjóðum af þekkingu okkar á stjórn fiskveiða. Ég tel hana alls ekki til neinnar fyrirmyndar.

Ég vék aðeins að því í ræðu minni áðan að íslenskir ráðamenn gerðu sér sérstakt far um að tala ævinlega um fiskveiðistjórn okkar eins og hún væri í einhverjum sérstökum farvegi til framtíðarnotkunar og -nýtingar á fiskstofnunum miðað við að við værum að viðhalda þeim í vistkerfi hafsins og nýta þá rétt. Ég tel svo alls ekki vera eins og málum er komið, því miður, herra forseti, og þess vegna finnst mér dapurlegt að þurfa að vekja athygli á því hvernig þessum málum er haldið fram af ráðherrum okkar á erlendum vettvangi. Og það er auðvitað dapurlegt að þurfa ævinlega að vera að lesa yfirlýsingar, m.a. sjómannasamtakanna um það hvaða afstöðu þau hafa til núverandi fiskveiðistjórnarkerfis. Mér finnst að hallað sé svolítið réttu máli, herra forseti, og þess vegna vek ég athygli á þessu.

Ég vil einnig segja að þó að í skýrslunni standi að menn eigi að auka vægi endurnýjanlegrar orku veitir það okkur ekki sjálfkrafa rétt til þess að gera það með hvaða aðferðum eða hvers konar landnýtingu sem okkur dettur í hug þannig að það er að mörgu að hyggja hjá okkur sjálfum en vissulega hafa Íslendingar alla burði, tæknilega og fjárhagslega, til þess að styðja betur við þróunarmál í heiminum.