Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:57:56 (2550)

2002-12-12 11:57:56# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.

Frv. þetta er samið í heilbr.- og trmrn. í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var 4. desember 2002. Samkomulagið var undirritað í framhaldi af viðræðum um ýmis samskiptamál ríkis og sveitarfélaga á grundvelli yfirlýsingar þessara aðila frá 28. desember 2001. Í 3. tölulið samkomulagsins kemur fram að aðilar séu sammála um að ríkið yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Sveitarfélög skulu þó áfram láta í té lóðir undir framangreindar sjúkrahúsbyggingar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda í samræmi við núgildandi ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Samkomulagið gerir ráð fyrir að sveitarfélögin verði áfram eigendur núverandi eignarhluta sinna í heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum en taki ekki þátt í viðhaldskostnaði þeirra eða nýframkvæmdum við þau. Sveitarfélögin geta ekki krafist innlausnar á 15% eignarhluta sínum nema afnotum umræddra fasteigna í þágu heilbrigðisþjónustu ljúki.

Ákvæði laganna um hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum hjúkrunarheimila, endurhæfingarstofnana, sjúkrasambýla og vinnu- og dvalaraheimila haldast óbreytt. Fari fram blönduð starfsemi á sjúkrahúsi skal kostnaðarhlutdeild ríkis og sveitarfélaga ráðast af umfangi hverrar starfsemi. Skal þá höfð til hliðsjónar stærð húsnæðis og áætlaður fjöldi rýma undir hverja starfsemi um sig.

Samhliða niðurfellingu á 15% stofnframlagi sveitarfélaga kveður samkomulagið á um að núverandi aðild sveitarfélaga að stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa falli brott.

Í samkomulaginu kemur fram að áætlaður árlegur kostnaður sveitarfélaganna sem ríkið yfirtekur nemi að meðaltali 100 millj. kr. Jafngildi það 0,05% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum. Lækkar framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til samræmis við það.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að breytingarnar gildi frá 1. janúar 2003.

Þar sem kveðið er á um hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og aðild þeirra að stjórnum í lögum um heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt að breyta lögunum til að hrinda samkomulaginu í framkvæmd. Í samræmi við fyrrgreint samkomulag er því lagt til að ákvæði um að sveitarfélög greiði 15% kostnaðar við byggingu og búnað heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa falli brott.

Samkvæmt núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu skipar ráðherra fimm manna stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og eru þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn, einn af starfsmönnum viðkomandi stofnunar og einn án tilnefningar. Í samræmi við framangreint samkomulag milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga er gert ráð fyrir að stjórnir framangreindra stofnana verði lagðar niður. Þetta á þó ekki við um stjórnarnefnd Landspítala -- háskólasjúkrahúss enda tekur Reykjavíkurborg ekki þátt í stofnkostnaði og tilnefnir ekki fulltrúa í stjórnarnefnd sjúkrahússins. Ekki er því gerð tillaga um aðrar breytingar á ákvæðum um stjórnarnefnd Landspítala -- háskólasjúkrahúss en þær sem leiðir af sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur á sínum tíma.

Niðurlagning stjórna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa styðst einnig við þær breytingar sem urðu við setningu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, en með því var valdsvið og ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana aukið og vald og ábyrgð stjórnar ríkisstofnana að sama skapi skert. Skv. 38. gr. starfsmannalaganna ber forstöðumaður ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög. Getur hann þurft að sæta áminningu eða lausn frá störfum ef út af bregður. Skv. 5. gr. starfsmannalaganna skipar ráðherra forstöðumann ríkisstofnana en forstöðumaður ræður aðra starfsmenn. Þá taka forstöðumenn ákvörðun um uppsögn starfsmanna og veitingu áminningar samkvæmt starfsmannalögum og þeir bera jafnframt ábyrgð á þeim ákvörðunum.

Einnig er vísað til álits nefndar sem fjmrh. skipaði í byrjun mars árið 2000 til að gera úttekt á ákvæðum laga um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana. Meginniðurstaða nefndarinnar var sú að hvað varðar ábyrgð, valdsvið og stjórnunarábyrgð forstöðumanna sé verulegt misræmi milli ákvæða almennra laga, einkum starfsmannalaganna og laga um fjárreiður ríkisins, og þeirra fjölmörgu sérlaga sem fjalla um stjórnun stofnana, stjórnsýslustaða stofnana, hlutverk stjórna og staða forstöðumanna séu oft óljós og það sé því oft óljóst hver ber ábyrgð á rekstri stofnunar. Í tillögum nefndarinnar er því m.a. lagt til að ríkisstofnanir hafi ekki eiginlegar stjórnir.

Með frv. er lagt til að ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu verði breytt í samræmi við framangreint samkomulag ríkis og sveitarfélaga. Þannig er lagt til, eins og áður segir, að ríkið yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaganna í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og að stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa annarra en Landspítala -- háskólasjúkrahúss verði lagðar niður.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu skal nefnd skipuð fulltrúum ráðuneytisins og Félags forstöðumanna sjúkrahúsa og fulltrúar viðkomandi stjórnar meta umsækjendur um stöður framkvæmdastjóra. Í frv. er lagt til að fulltrúi viðkomandi sveitarstjórnar komi í stað fulltrúa stjórnar í matsnefndinni.

Herra forseti. Ég hef nú rakið helstu breytingar sem felast í frv. en eins og fram hefur komið er um að ræða breytingar sem nauðsynlegar eru til að hrinda í framkvæmd samkomulagi ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga sem var undirritað 4. desember sl. og koma á til framkvæmda 1. janúar nk.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.