Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:34:55 (2556)

2002-12-12 12:34:55# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hæstv. heilbrrh. um það að ég held að sameining heilsugæslustöðva á ákveðnum svæðum í öflugar heilbrigðisstofnanir hafi verið góð þróun og ég held að þar sem það hefur vel tekist og þar sem er svona eðlilega landfræðilega afmörkuð samstarfsheild þá sé það hið besta fyrirkomulag.

Það þarf hins vegar ekki á nokkurn hátt að þýða að heimamenn geti ekki áfram verið fullgildir þátttakendur í stjórnun þeirra stofnana, t.d. í gegnum héraðsnefndir eða fjórðungssambönd eða hvað það nú er, þannig að það á að halda því algerlega aðskildu.

Hæstv. ráðherra svaraði að vísu ekki spurningu minni um það og ég fæ þá vonandi svar við því síðar undir lok umræðunnar hvers vegna ekki má fresta þessu máli og skjóta því inn í heildarendurskoðun laganna sem boðuð er. Ég teldi miklu heppilegra að vera ekki að hræra í þessu núna heldur drífa þessa nefnd af stað sem á að fara í heildarendurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu og fela henni m.a. að fara rækilega yfir þessa þætti: Hvernig á að endurskipuleggja stjórnsýsluna í málaflokknum, hver á að vera aðild heimamanna, hvernig á að tryggja samráð við þá, hvernig á að tryggja samráð við starfsmenn og að þeir hafi möguleika til að koma sínum sjónarmiðum að?

Þarna er verið að hverfa frá slíku á sama tíma og enn þá eiga að halda sér t.d. lögin um Landspítala -- háskólasjúkrahús og ekki á að hrófla við stjórn þeirrar stofnunar. Þar eiga starfsmenn aðild, þannig var það a.m.k. á minni tíð þegar ég sat þar í stjórnarnefnd.

Ég endurtek svo að lokum: Ég held að heilbrigðisþjónustan, stjórnkerfi hennar og yfirstjórn sé allt of miðstýrð. Ég held að stefna eigi að því að færa miklu meira af stjórnunarlegu valdi en líka starfseminni út á svæðin. Það eru hundruð starfa í þeirri stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu sem mætti dreifa í miklu ríkari mæli úti um landið. Ef við berum saman t.d. vegamál og heilbrigðismál þá byggir Vegagerðin starfsemi sína þannig upp að stærstur hluti þeirra verkefna er unninn úti í umdæmunum. Það er ekki eitt risastórt vegagerðarbatterí á höfuðborgarsvæðinu. Nei, það er öflug starfsemi vítt og breitt um landið og þannig gæti það líka verið í heilbrigðismálunum.

En þá verða menn einhvers staðar að spyrna við fæti og það má ekki horfa á hverja breytinguna á fætur annarri teikna til síaukinnar miðstýringar í þessum efnum, en það er auðvitað það sem er að gerast.