Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:42:52 (2558)

2002-12-12 12:42:52# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem fjallar að mestu leyti um stjórnun þessa mikla og mikilvæga þáttar ríkisstarfseminnar.

Góð og styrk stjórnun er verðmæti. Hún er verðmæti fyrir starfsmennina, það er mikill munur að starfa í vel reknu og vel stjórnuðu fyrirtæki. Hún er verðmæti fyrir viðskiptavinina, sjúklingana, og er þar af leiðandi þáttur í því að byggja upp gott velferðarkerfi í þessu dæmi og hún er verðmæti fyrir eigendurna, þ.e. ríkissjóð. Og hún er verðmæti fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa góða og styrka stjórn.

Aðalsmerki góðrar stjórnunar er klárt skipurit, þ.e. að það sé alveg á hreinu hver ræður yfir hverjum og hver ber ábyrgð á starfseminni á sínu sviði. Það er merki um góða stjórnun þegar ákvarðanir eru teknar fljótt og vel og vel ígrundaðar, að ekki sé verið að bíða með ákvarðanir lon og don og að ekki sé stöðugt verið að krefjast nýrra og nýrra upplýsinga til þess að tefja ákvarðanir af því að menn þori ekki að taka þær, heldur séu þær snöggar og ígrundaðar. Það er vinna að stunda stjórnun, það er mikil vinna að stjórna. Talið er eðlilegt að hver maður, stjórnandi, ráði við allt að sjö undirmenn. Sú regla er mjög oft brotin.

Sú regla sem ég gat um að væri aðalsmerki góðrar stjórnunar, þ.e. klárt skipurit, er gróflega brotin hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og það versnar enn í þeim hugmyndum sem hér er talað um og kem ég inn á það á eftir.

[12:45]

Það er gjarnan eftirsótt að komast í stjórnunarstöðu. Margir vilja vera stjórnendur en það eru mjög fáir sem vilja stjórna. Það fer eftir starfi fyrirtækis og því hve flókinn reksturinn er hvernig menn byggja upp stjórnun. Í litlu fyrirtæki, svona 10, 20 eða jafnvel 40 manna fyrirtæki er oft nægilegt að hafa einn stjórnanda sem ber ábyrgð gagnvart eigandanum. Ekki er þörf á að hafa sérstaka stjórn þegar um er að ræða einhæfa og fastmótaða starfsemi eins og rekstur sjúkrahúsa. Þau starfa samkvæmt lögum. Þess vegna er ég fylgjandi því sem hér er lagt til, að leggja niður stjórnir yfir litlum einingum. Hins vegar, ef fyrirtæki er komið yfir 50 manns, fer að verða nauðsynlegt að hafa stjórn sem ræður forstjóra og rekur hann. Það er mjög mikilvægt svo hann beri ábyrgð gagnvart stjórn.

Ég mundi vilja að hv. nefnd sem fær frv. til skoðunar skoði þetta og fái til sín menn sem kunna almennt til stjórnunarfræða til að meta þetta.

Stjórnir yfir litlum fyrirtækjum, 200--300 manna fyrirtækjum, mega gjarnan vera þriggja manna. Litlar stjórnir eru miklu fljótvirkari, þ.e. þær eru sneggri að taka ákvarðanir.

Þegar fyrirtæki stækka, í þessu tilfelli Landspítali -- háskólasjúkrahús sem er eftir því sem ég síðast vissi með 5 þúsund manns í vinnu, veitir ekki af stórri stjórn, allt að níu manna stjórn, sem hefði kannski þriggja manna framkvæmdaráð sem starfaði vikulega. Framkvæmdaráðið og stjórnin, þessi níu manna, mundi ráða framkvæmdastjóra og reka hann ef hann ekki stæði sig. Þá er á hreinu hver ber ábyrgð og hver ræður.

Það er mjög mikilvægt að hafa bæði ábyrgð og aga í fjármálum, alveg sérstaklega í ríkisfjármálum. Við sjáum því miður alltaf aftur og aftur að þrátt fyrir þær tilraunir sem gerðar hafa verið undanfarið með fjárreiðulögunum og með því að koma á mjög skilvirku ríkisbókhaldi --- ég vil bara þakka fyrir það í framhjáhlaupi hvað fjárlög, fjáraukalög og ríkisbókhald koma fljótt á borð þingsins --- að enn þá vantar aga. Menn fara langt fram úr fjárlögum og það ætti í raun að reka þó nokkuð marga forstöðumenn þegar þeir ekki standa við fjárlög, sem eru lög landsins og fjárreiðulögin taka á því.

Herra forseti. Mig langar til að tala um 8. gr. þar sem fjallað er um fyrirbærið Landspítala -- háskólasjúkrahús. Þar er verið að fara inn á ótrúlegar brautir. Þar eru reyndar ótrúlegar brautir í dag. Við erum með forstjóra sem er skipaður af ráðherra en stjórnunarnefnd sem er skipuð af Alþingi að mestu leyti. Og stjórnunarnefndin, af því hún heitir stjórnunarnefnd, heldur vitanlega að hún eigi að stjórna einhverju. Forstjórinn, sem heitir jú forstjóri, heldur líka að hann eigi að stjórna einhverju. Þarna eru sem sagt tveir aðilar að stýra bílnum og afleiðingin er ábyrgðarleysi. Hvor um sig getur alltaf vísað á hinn eða þá að ákvarðanir eru ekki teknar.

Nú er hins vegar lagt til enn verra fyrirbæri sem, með leyfi herra forseta, ég ætla að lesa hérna upp:

,,Landspítali -- háskólasjúkrahús skal vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, en stjórn spítalans öðru leyti falin 7 manna stjórnarnefnd.``--- Þetta þýðir að ráðherra á að stjórna spítalanum en að öðru leyti skal stjórnunarnefndin stýra. Hér segir aðeins að ,,að öðru leyti`` sé stjórnin falin nefndinni. Það eru sem sagt óljós mörk á milli ráðuneytis og stjórnunarnefndar.

Hér stendur jafnframt, með leyfi herra forseta:

,,Forstjóri Landspítala -- háskólasjúkrahúss skal skipaður af ráðherra ...`` --- Forstjórinn er sem sagt skipaður af ráðherra en ekki af stjórnarnefndinni sem skipuð er af Alþingi. Allt á þetta batterí að stýra þessu fyrirtæki.

Síðan segir:

,,Ráðherra ræður meðlimi framkvæmdastjórnar spítalans samkvæmt stjórnskipulagi Landspítala -- háskólasjúkrahúss.`` --- Þar er sem sagt komin framkvæmdastjórn til viðbótar. Ráðherrann ræður hana, fram hjá stjórnarnefndinni og fram hjá forstjóranum. Hver er yfir hverjum, herra forseti? Hver ræður? Hvað gerist ef framkvæmdastjórnin ákveður eitthvað, stjórnarnefndin annað, forstjórinn það þriðja og ráðuneytið hið fjórða? Hvaða tæki verður keypt? Verða þau öll keypt? Hver ber ábyrgð? Þetta er ekki nógu sniðugt, herra forseti.

Ég vil að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar fái til sín sérfræðinga í stjórnun til að athuga hvernig þessu verði best fyrir komið. Ég held að því yrði best fyrir komið þannig að ráðherra, sem situr í umboði Alþingis --- takið eftir því --- og ber ábyrgð gagnvart Alþingi, herra forseti, skipi stjórnina, sjö eða níu manna stjórn mín vegna. Síðan velji stjórnin, þessi níu manna stjórn, úr sínum hóp þriggja manna framkvæmdastjórn sem starfar og hittist vikulega, tekur ákvarðanir vikulega. Það yrði mikið starf. Stjórnin, þessi níu manna stjórn, réði svo forstjóra. Hann gæti ráðið framkvæmdanefnd, fimm, sex eða sjö manna framkvæmdanefnd sem stýra mundi einstökum deildum sjúkrahússins eða einstökum þáttum sjúkrahússins. Þar með erum við komin með algjörlega rökrétt skipurit. Þar er alveg á hreinu hver ræður yfir hverjum og einnig alveg á hreinu hver ber ábyrgð ef illa fer. Þá hætta kannski að gusast út hundruð milljóna á hverju einasta ári umfram áætlanir og umfram fjárlög.

Ég held að hin mikla óráðsía í rekstri Landspítalans -- háskólasjúkrahúss sé vegna galla í uppbyggingu stjórnunar. Ég vil að hv. nefnd sem fær málið til skoðunar skoði þetta dæmi, hvort við fáum ekki miklu betri rekstur og verðmætari fyrir starfsmenn, viðskiptamenn, eigendur og þjóðfélagið.