Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 12:52:26 (2559)

2002-12-12 12:52:26# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[12:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu fjallar fyrst og fremst um að fella burt úr lögum um heilbrigðisþjónustu öll hugtök sem lúta að því að stjórn fari með mál sjúkrahúsa eða heilsugæslustöðva.

Sagt hefur verið að þetta sé hluti af viðræðum sem farið hafa fram milli ríkisins og sveitarfélaganna um ákveðin fjármálaleg samskipti sem verið hafa í deiglunni á undanförnum árum og er fjarri því að búið sé að leysa. Í dag eða í gær var vitnað í ummæli bæjarstjórans á Ísafirði, Halldórs Halldórssonar, um að enn skorti nokkra milljarða króna inn í þetta dæmi, sveitarfélögin hefðu fengið verkefni frá ríkinu án þess að þeim fylgdu tekjustofnar og þar munaði milljörðum króna sem enn væri deilt um. Það samkomulag sem hér er verið að kynna verður því að skoðast sem ákveðið afgreiðslusamkomulag. Þetta er fjarri því að vera fullnaðarsamkomulag hvað varðar þessi fjármálalegu samskipti.

Ég held að rétt sé að hafa í huga að hér er verið að afgreiða að hluta samkomulag um ákveðin atriði í fjármálasamskiptum ríkis og sveitarfélaga. Því fer fjarri að þetta sé endanlegt samkomulag um þau atriði sem deilt er um. Það hefur skýrt komið fram, m.a. hjá Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra á Ísafirði í Fréttablaðinu nýlega.

Þá velti maður því líka fyrir sér hvaða umboð stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eða einhver nefnd á þeirra vegum hefur til að gera grundvallarbreytingar á lagalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég velti einnig fyrir mér þessari setningu hér sem sett er inn í þetta samkomulag, með leyfi forseta:

,,Í samkomulaginu kemur fram að samhliða fyrrgreindum breytingum falli brott núverandi aðild sveitarfélaga að stjórnum heilsugæslustöðva og umræddra flokka sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.``

Mér er spurn: Hefur einhver hópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvort sem er stjórn eða aðrir, umboð til þess að gera svona samþykkt? Mér vitanlega hefur þetta mál, stjórnskipulegt mál, ekkert verið rætt á fulltrúafundi Sambands íslenskra sveitarfélaga eða á aðalfundi. Að vitna í það hér að verið sé að uppfylla eitthvert samkomulag sem öll sveitarfélögin á landinu standi að er ekki rétt. Það er bara ósatt.

Mér finnst að kanna eigi lagalegan rétt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til að gera samning eða yfirlýsingu sem þessa, að þetta sé hluti af einhverju samkomulagi um ákveðið fjármálauppgjör sem alls ekki er þó tæmandi eða sátt um milli ríkis og sveitarfélaga. Ég vil bara draga þetta fram. Ég tel að hérna sé verið að skjóta sér á bak við samþykktir sem eigi sér hvorki lagalega né siðferðilega stoð.

Það að taka út þetta ákvæði um stjórnir sjúkrahúsa er í sjálfu sér alvarlegt mál. Áfram eru sveitarfélögin þátttakendur í rekstri og stofnkostnaði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Ég vil vitna , með leyfi forseta:

,,Í 3. tölul. samkomulagsins kemur fram að aðilar séu sammála um að ríkið yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.`` --- Og takið svo eftir:

,,Sveitarfélög skulu þó áfram láta í té lóðir undir framangreindar sjúkrahúsbyggingar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda í samræmi við núgildandi ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.``

Sveitarfélögin verða þannig áfram stór aðili að þessu. Sveitarfélögin verða áfram eigendur núverandi eignarhluta í heilsugæslustöðvum og framangreindum flokkum sjúkrahúsa, en taka ekki þátt í viðhaldskostnaði þeirra eða nýframkvæmdum við þær. Sveitarfélögin eru áfram eigendur að sínum 15%. Þau leggja til lóðir og gefa eftir gatnagerðargjöld og sjá um þá hlið rekstursins.

Það sem kannski er alvarlegast í þessu, virðulegi forseti, er að í lögum sem á að fella niður, 15. gr. laganna, stendur, með leyfi forseta:

,,Kveðið skal á um skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi í reglugerð. Þar skal einnig kveðið á um fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.``

,,Að höfðu samráði við sveitarfélögin`` er fellt burt þannig að heilsugæslusþjónusta um land allt verður án tengsla við íbúa á svæðinu um skipan hennar.

Ég hef verið hér á Alþingi og setið í fjárln. Ég þekki einmitt vel að eitt af áherslumálum hjá sveitarstjórnum og sjúkrahússtjórnum um allt land hefur verið að standa vörð um heilsugæsluna. Þeim hefur fundist ríkisvaldið sem aðaleigandi og fjármögnunaraðili vilja stöðugt halda að sér höndum og draga úr þjónustunni, sérstaklega úti á landi. Þau hafa þar verið virkir aðilar í að standa vörð um þessa þjónustu. Þessi tengsl á að rjúfa. Kannski hafa þau reynst einhverjum óþægileg. Kannski er það þess vegna sem ekki tókst að fá stofnkostnað til heilsugæslustöðvar á Skagaströnd merktan inn á fjárlög. Það er þægilegra, eftir að öll ákvarðanataka og öll tengsl við heimamenn eru horfin, að ráðskast með þessi mál.

Ég veit að eitt aðalbaráttumálið heima í Skagafirði hefur verið að heilsugæsluþjónusta yrði líka starfrækt á Hofsósi. Það má vel vera að hún sé ekki fjárhagslega hagkvæm en hún er nauðsynleg þjónusta í heildarsamfélaginu þar. Það hafa einmitt verið heimamenn, í gegnum tengsl sín við stjórn og aðkomu að heilsugæslustöð og sjúkrahúsi á Sauðárkróki, sem hafa barist fyrir því að hún yrði áfram.

[13:00]

Með þessum breytingum er verið að rjúfa öll þessi tengsl um starfssvæði, flokkun og þjónustu sjúkrahúsanna við heimamenn í héruðum. Og það tel ég mikla afturför. Þetta er kannski í rauninni meint til þess að ríkið hafi miðstýringarvald til að skammta gæði og flokkun á þessari þjónustu út um land. Kannski er það tilgangurinn sem í þessu er fólginn því að að öðru leyti geta þessar stjórnir ekkert verið til vandræða. Ekki hafa þær ákvörðunarvald. Þær eru fyrst og fremst ráðgefandi. Framkvæmdastjórinn ræður og ber hina embættislegu ábyrgð. Stjórnirnar hafa ekki borið hana en þær hafa verið nauðsynlegur tengiliður yfir í það samfélag sem þarna var verið að þjóna og staðið vörð um það.

Ég þekki þetta t.d. úr starfsumhverfi mínu. Sem skólastjóri á Hólum, sem er algjör ríkisstofnun, bar ég í umboði ráðherra alla fjárhagslega og framkvæmdalega ábyrgð á því sem þar fer fram. En við skólann er starfandi ráðgefandi búfræðslunefnd, skólanefnd. Hún hefur ekkert framkvæmdarvald. Ekki neitt. En hún hefur gríðarlega mikið vald í gegnum það að geta komið að málum, stutt við málin, skýrt þau, gefið þeim meiri vídd og þannig verið stofnun sinni til stuðnings og þeim verkefnum sem henni er ætlað að þjóna. Væri beitt sömu rökfærslu á þá stofnun eins og hér er gert ætti að strika skólanefnd Hólaskóla út. Ég teldi það afar vanhugsað en það væri eðlilegt í ljósi þeirra röksemda sem hér eru lagðar fram fyrir því að þurrka út þessar sjúkrahússtjórnir. Skólanefndin þar er afar mikilvægur tengiliður, tengir út í umhverfi sitt og styður stofnunina og verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum. En hún hefur ekkert framkvæmdarvald og enginn er að setja út á það. Hún er afar mikilvæg engu að síður.

Virðulegi forseti. Ég tel þess vegna að mörg rök mæli gegn þessum tillöguflutningi sem hér er verið að ræða. Í fyrsta lagi hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ekkert lagalegt umboð til þess að ganga frá samkomulagi um að fella niður sjúkrahússtjórnir eins og hér er gert. Þetta hefur hvergi verið tekið fyrir á fulltrúaráðsfundum eða landssambandsfundum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þess vegna er sú yfirlýsing í sjálfu sér marklaus að mínu viti og rangt að draga hana hingað inn, það væri a.m.k. þá eðlilegt að stjórnin aflaði sér formlegrar heimildar því þarna er verið að breyta lögum og stjórnskipan.

Í öðru lagi hafa sjúkrahússtjórnirnar verið mikilvægar til að tengja þessa mikilvægu þjónustu við umhverfi sitt, neytendur og samfélag. Það býður þeirri hættu heim að verði þær látnar hætta, víkja eins og hér er lagt til, settar út, verður auðveldara fyrir miðstýringarvaldið í Reykjavík að ganga að stofnunum og stýra þar þjónustustiginu eins og því sýnist, átölulítið eða án aðkomu heimamanna. Það tel ég líka alranga stefnu. Þessar stjórnir hafa ekkert þvælst fyrir, hér ætti annars a.m.k. að koma fram yfirlýsing um að þær hefðu þvælst fyrir og verið þessari starfsemi til erfiðleika. Það hefur enginn minnst á það. En ég þekki það úr starfi mínu hér á Alþingi að þessar stjórnir hafa verið gríðarlegur stuðningur við starfsemina og borið raddir samfélagsins, borið raddir heimamanna, til þingnefndanna. En þetta á að skrúfa fyrir með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi hér komið þeim sjónarmiðum alveg afdráttarlaust á framfæri að tillögur um að fella burt úr lögum að hér séu sjúkrahússtjórnir eða sjúkrahússráð sem tengiliðir við neytendurna og við samfélagið eru vondar. Ég tel líka rangt að fella það niður að hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga geti komið að ákvörðun á þjónustustigi, flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra vítt og breitt um landið. Það er verið að skera hér á mikilvæg tengsl sem hafa verið hornsteinn okkar við heilbrigðisþjónustu.