Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 13:45:08 (2563)

2002-12-12 13:45:08# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem liggur hér fyrir og við ræðum um er samið í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband ísl. sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga frá því í byrjun þessa mánaðar. Slíkt samkomulag sem gert er út af fjármálasamskiptum þessara tveggja stóru aðila er auðvitað af hinu góða og eðlilegt að ráðherra komi fram með frv. sem mætir því samkomulagi sem þar hefur verið gert. Samband ísl. sveitarfélaga starfar jú í umboði sveitarfélaganna í landinu.

Mig langar að nefna nokkur atriði úr frv. Eitt af því er staða stjórna í heilsugæslunni. Það er löngu vitað að staða þeirra stjórna hefur verið afar veik. Þannig var í Reykjavík um nokkuð margra ára skeið að fjölmargar stjórnir voru yfir heilsugæslustöðvunum og sums staðar þannig að það var heil stjórn yfir einni stöð. Það má kalla óeðlilega yfirbyggingu, enda var því kippt í liðinn og það var rétt skref að mínu mati og stjórnir heilsugæslustöðvanna í Reykjavík voru sameinaðar.

Smám saman hefur staða þessara stjórna veikst og eru ýmsar ástæður fyrir því. Ekki er þar með sagt að áhrifa heimamanna gæti ekki hvað varðar ákvarðanatöku því sveitarstjórnir og aðrir hafa auðvitað aðgang að ráðherra, ráðuneyti, þingmönnum og þingnefndum til að ræða sín mál. Og það er auðvitað nauðsynlegt að svo sé. Þó er hægt að halda því fram að í stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, þótt valdalausar væru, hafi rödd neytandans heyrst. Hæstv. ráðherra hefur reyndar svarað þessu nú þegar á þann hátt að áfram hafi heimamenn og sveitarstjórnarmenn aðgang að ákvarðanatöku og ég held að ég þurfi ekki að spyrja ráðherra sérstaklega um það.

En mig langar til að nefna c-lið 8. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að viðkomandi sveitarstjórn eigi fulltrúa í nefnd sem metur hæfi umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsanna. Mig langar að spyrja hvernig sé með heilsugæsluna hvað þetta varðar. Verður gert ráð fyrir að yfir heilsugæslunni verði forstjóri og/eða framkvæmdastjóri sem gerðar eru sömu kröfur til um menntun og þekkingu og á sjúkrahúsunum? Það hefur verið keppikefli að þeir væru nokkurn veginn lagðir að jöfnu, þeir stjórnendur sem væru í heilsugæslunni og í sjúkrahúsgeiranum. Og er það ekki eðlilegt að gerðar séu svipaðar kröfur? Sé svo, þá vantar að mínu mati að tekið sé fram í frv. að sveitarstjórn eigi fulltrúa í nefnd sem meti hæfi umsækjenda um slíkar stöður í heilsugæslunni.

Kannski leynist þetta einhvers staðar annars staðar í frv. en ég hef ekki rekist á það og mig langar því að koma með þessa ábendingu og spyrja um afstöðu ráðherrans til hennar.

Þá vil ég einnig nefna í framhaldi af því sem ég sagði áðan um að margar stjórnir hefðu verið yfir heilsugæslustöðvunum í Reykjavík og því hefði verið breytt í eina stjórn sem var ágætt, en hún hefur verið valdalítil og menn hafa eins og annars staðar í stjórnsýslunni reynt að auka ábyrgð æðstu yfirmanna, þ.e. forstjóra og framkvæmdastjóra og það hefur gilt í heilsugæslunni einnig.

Nú er það svo að sameiginleg framkvæmdastjórn svokölluð er yfir heilsugæslustöðvunum í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi og Seltjarnarnesi, en til hefur staðið að sameina stjórnir þessara stöðva en ekki hefur verið algjör eining um það eftir því sem ég best veit og það hefur ekki verið framkvæmt. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif breytingar sem fylgja þessu frv. muni hafa á áætlanir um sameiningu heilsugæslustöðvanna á Stór-Reykjavíkursvæðinu hvað yfirstjórn varðar.

Ég vil að lokum nefna og dreg ekki dul á þá skoðun mína að heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa eigi í heildinni langbest heima hjá sveitarstjórnum eða einstaklingum og væri í rauninni betur komin á forræði sveitarfélaganna. Ég hef reyndar lýst þeirri skoðun minni áður.

Ég er líka þeirrar skoðunar að fagfólk innan þessara geira eigi að hafa meira með rekstur starfseminnar að gera, þannig að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð fari saman. Ég held að á þann hátt sé hagsmunum sjúklinganna best borgið í rauninni.

En það er ekki til umræðu í sjálfu sér í þessu frv. en hlýtur náttúrlega að vera til umræðu síðar vegna endurskoðunar á lögum um heilbrigðisþjónustu, að menn velti fyrir sér hvar málunum sé best fyrir komið. Ég held þegar upp er staðið að það sé farsælast að þau séu sem næst neytandanum og þess vegna tiltek ég þar sveitarfélögin og einstaklinga og fjárhagslega og faglega ábyrgð sem mér finnst að eigi að fara sem mest saman.

Ég vil leggja þær spurningar sem ég tiltók áðan fyrir hæstv. ráðherra.