Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 13:51:51 (2564)

2002-12-12 13:51:51# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég var fjarverandi þegar umræðan hófst hérna í dag og má því vel vera að þær spurningar sem ég hef fram að færa til hæstv. heilbrrh. hafi þegar komið fram og þá virðir hann mér það til betri vegar.

Fram er komið frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem tekur á ýmsum þáttum varðandi skipulag heilbrigðisþjónustu, m.a. varðandi stjórnir stofnana. Þar er t.d. lagt til að leggja niður stjórnir sjúkrahúsa samkvæmt skilgreiningu í heilbrigðislögum um sjúkrahús fyrir utan öldrunarstofnanir. Það vekur athygli í frv. að stjórnir stofnana um allt land eru lagðar niður en hins vegar kemur ekki fram hvers vegna stjórn Ríkisspítala er látin halda sér. Mig langar því til að fá að heyra rök hæstv. ráðherra fyrir því hvað veldur þeirri sérstöðu Landspítala -- háskólasjúkrahúss, sem við þó náttúrlega vitum hver er, hvað varðar stjórnskipulagið sem veldur því að sú stjórn er látin halda sér. Það kemur ekkert fram í skýringu með frv. hvers vegna sú ráðstöfun er gerð.

Ástæða þess að frv. er lagt fram kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið en þar segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var 4. desember 2002.``

Þarna kemur m.a. fram að með þessu samkomulagi eru fulltrúar sveitarfélaga teknir út úr stjórnum þessara stofnana. En í beinu framhaldi af því eru stjórnirnar lagðar niður. Mig langar að vita hvort sú ákvörðun að leggja stjórnirnar niður séu hluti af samkomulaginu við sveitarfélögin, eða hvað annað liggur þar að baki? Mér er náttúrlega fullkomlega ljóst að stjórnir sjúkrahúsa eftir að starfsmannalögin tóku gildi hafa afskaplega lítið vald og þær eru hálfgerðar ambögur í kerfinu, þar sem það eru raunverulega framkvæmdastjórar sjúkrahúsanna sem hafa vald til þess að reka og ráða og taka ákvörðun um starfsemina á hverjum tíma. Sú breyting var reyndar umdeild á sínum tíma en látum hana liggja milli hluta núna.

Mig langar jafnframt að spyrja ráðherra hvort hann telji að ástæða sé til að hugleiða það að fara sömu leið og Norðmenn hafa t.d. gert frá síðustu áramótum, þ.e. að reka sjúkrahúsin sem fyrirtæki að því leyti að stofnað er um þau hlutafélag og það eru raunverulegar stjórnir sem hafa ábyrgð og vald, og þá vald yfir framkvæmdastjóra sem eru þá það apparat innan kerfisins sem ræður. Mig langar að heyra álit hæstv. ráðherra á þeirri skipan sem Norðmenn hafa tekið upp.

Um breytta kostnaðarskiptingu við búnað og byggingu sjúkrahúsa kemur fram í frv., og er hluti af samkomulagi við sveitarfélögin, að ríkið tekur núna yfir 100% af kostnaði við búnað og byggingu. Mig langar að varpa fram til hæstv. ráðherra spurningu um hvernig slík skipting er hugsuð varðandi þá starfsemi sem hýsir bæði sjúkrahús, öldrunarstofnun og heilsugæslu. Því samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir að nein breyting verði á kostnaðarskiptingu milli öldrunarstofnana og sjúkrahúsa, öldunarstofnana annars vegar og sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hins vegar, þ.e. að öldrunarstofnanir eru áfram að hluta til fjármagnaðar af sveitarfélögunum, þ.e. bygging og búnaður. Einhver áhöld hafa verið um hver kostnaðarskiptingin er og reyndar er það svo að ég bíð enn þá eftir svari frá hæstv. ráðherra um þetta atriði. Sú fyrirspurn var sett fram fyrst bréflega til ráðuneytisins 6. september sl. og síðan ítrekuð með þskj. í lok október sl. Ég vildi því gjarnan fara að fá svar við því hver er hin rétta kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga við uppbyggingu öldrunarstofnana. Þetta er nú aðeins hliðarspor en ég vildi nota þetta tækifæri til að ítreka þá fyrirspurn sem hefur ekki verið svarað skriflega.

Fram kom í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers að hann velti fyrir sér ráðningum hjúkrunarforstjóra. Samkvæmt frv. er það á valdi framkvæmdastjóra, það er ekki lengur stjórn sem kemur þar að. Hv. þm. velti m.a. fyrir sér hvort læknaráð eða starfsmannaráð kæmi að slíkum ráðningum. Í framhaldi af því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra einmitt í ljósi þess að verið er að leggja niður stjórnirnar sem hafa verið umsagnaraðilar hingað til varðandi ráðningar hjúkrunarforstjóra, hvort hann telji þá ekki rétt að setja á laggirnar hjúkrunarráð innan heilbrigðisstofnana sem væru þá þeir umsagnaraðilar sem læknaráð eru gagnvart stöðu lækna. Með því móti er þá komið sams konar tæki gagnvart hjúkrunarfræðingum sem eru samkvæmt lögum annar af tveimur stólpum kerfisins og hvort ekki sé rétt að það verði stofnsett samkvæmt lögum, en slík ráð eru m.a. starfandi á FSA og á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, og ef ég man rétt einnig á Akranesi, en hafa ekki lagastoð. Ég vildi því varpa þeirri fyrirspurn fram til hæstv. heilbrrh.

Ég held ég láti máli mínu lokið varðandi umfjöllun um þetta mál sem er mjög stórt mál í raun og veru og ég bíð eftir að fá svör frá hæstv. ráðherra varðandi spurningar mínar.