Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:08:24 (2567)

2002-12-12 14:08:24# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram hér um þetta mál. Hún hefur verið efnisleg. Það hafa ýmsar spurningar verið lagðar fram varðandi málið og ég mun leitast við að svara þeim.

Ég vil fyrst kannski byrja þar sem hv. 3. þm. Norðurl. e. endaði, svo það sé enginn misskilningur um það.

Ég sagði í framsöguræðu minni þar sem var samhljóða þeirri tilvitnun sem hann var með, þ.e. að samhliða niðurfellingu á 15% stofnframlagi sveitarfélaga kveður samkomulagið á um að núverandi aðild sveitarfélaga að stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa falli brott. Þetta er alveg rétt. Ég hef ekki haldið því fram að niðurfelling stjórnanna sé öll bundin þessu samkomulagi. En samkomulagið hefur það í för með sér að það verður að breyta núverandi fyrirkomulagi og bókunin segir það. Ég vitnaði í framsöguræðu minni til þeirra breytinga sem orðið hafa á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem gera umboð stjórnanna óskýrt og valda því að hlutverk þeirra verður í lausu lofti. Sú breyting á því rætur að rekja til þess. Það er alveg rétt. Ég hef þá verið misskilinn ef það hefur verið lesið út úr framsöguræðu minni að ég bindi þetta eingöngu við samkomulagið. Það er ekki svo.

Hér hefur verið drepið á mörg mál og m.a. hafa nokkrir spurt hvers vegna stjórn Ríkisspítalanna eða stjórn Landspítalans -- háskólasjúkrahúss sé sett á vetur, ef svo má að orði komast. En það kom nú fram reyndar í framsöguræðu minni að samkomulagið hefur engar breytingar í för með sér varðandi þá stjórn vegna þess að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús var eingöngu rekinn af ríkinu eftir samkomulag þar um og sameininguna.

Ég hef svarað þá um leið fyrirspurn hv. 19. þm. Reykv. um hvort niðurlagning stjórnar sjúkrahúsanna sé hluti af samkomulaginu. Svo er að hluta til en ekki að öllu leyti. Ég endurtek það.

Hv. þm. spyr einnig hvort við höfum skoðað það að reka sjúkrahúsin sem hlutafélög. Við höfum ekki gert það. Við höfum gengið út frá því að rekstur sjúkrahúsanna skili ekki hagnaði heldur sé á núllpunktinum. Hlutafélög eru náttúrlega stofnuð til þess að skila eigendum sínum hagnaði. En við höfum ekki farið í þessi mál út frá þeirri sýn að breyta þeim í hlutafélög. Það hefur ekki verið skoðað hjá okkur.

Það er spurt hvernig þessi skipting sé hugsuð varðandi blandaðar stofnanir. Það er rétt að það gilda lög um málefni aldraðra, um öldrunarstofnanir og eignarhlutdeild í þeim. Því er nauðsynlegt að það sé ljóst hve stór hluti sjúkrahúsanna eða heilbrigðisstofnananna heyri undir eða hafi hlutverk sem öldrunarstofnanir og að sú skipting sé skýr. Það náttúrlega kallar á það því eftir að ríkið hefur tekið yfir heilsugæsluna, sjúkrahúsin, þá er nauðsynlegt að sú skipting sé vissulega skýr.

Varðandi hjúkrunarráð og læknaráð þá kom það fram hjá mér í andsvörum í morgun að ég hyggst taka upp í framhaldi af málinu m.a. hvernig starfsmenn koma að málum innan stofnananna. Ég er fylgjandi því að framkvæmdastjórar stofnana hafi nokkuð víðtækt umboð. En ég geri mér alveg grein fyrir því að þarna inni er læknaráð sem hefur nokkuð víðtækt umboð til afskipta af innri málefnum stofnananna. Ég er tilbúinn að fara yfir þetta mál í framhaldinu þó að þau séu ekki hluti af þessu frv.

Hv. 10. þm. Reykv. Pétur Blöndal talaði í ræðu sinni um framkvæmdaráð. Ég vil taka fram að á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi er framkvæmdastjórn sem fundar mjög títt, vikulega áreiðanlega að lágmarki, sem er mjög veigamikill þáttur í stjórnunaruppbyggingunni þar. Það má auðvitað ræða um það hvort ráðherra eða þingið eigi að skipa stjórn Landspítalans -- háskólasjúkrahúss, en ég hef ekki gert tillögur um breytingu á þessum atriðum núna. Greinin varðandi Landspítala -- háskólasjúkrahúsið er óbreytt. Engar breytingar eru gerðar þar á. Ég hef ekki lagt til að breyta neinu þar.

[14:15]

Hv. þm. Kristján Möller, 3. þm. Norðurl. e. ... reyndar 3. Norðurl. v. enn þá (SJS: Seinna eystra, það er rétt.) --- þú sérð að ég er á undan tímanum. Hann spurði um 15% eignarhlut sveitarfélaga og hvort ætlunin væri að heilbrigðisstofnanirnar greiddu leigu fyrir þau 15%. Ég hef ekki litið svo á að þessar leigugreiðslur væru hluti af samkomulaginu. Ég tel svo ekki vera. Samkomulagið sjálft hefur verið nokkuð til umræðu. Ég er í raun ekki ábyrgðarmaður fyrir því en ég framfylgi ákvæðum sem leiða af samkomulaginu. Ég hef ekki litið svo á að samkomulaginu fylgdi að heilbrigðisstofnanirnar ættu að greiða leigu fyrir þessi 15% í þau ár sem afskriftatíminn stendur.

Mig minnir að þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hin stóra fór fram, þegar skólarnir voru teknir yfir, hafi ríkið afhent skólana sveitarfélögunum. Ég lít svo á að þetta sé samkomulagsatriði og samkomulagið felur þetta í sér. Hins vegar ætla ég ekkert að fara að grafa mig niður í umræður um það, eins og hér hefur komið fram, hvort allir sveitarstjórnarmenn eru samþykkir þessu samkomulagi. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem skrifaði undir þetta samkomulag á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga þar sem nokkuð stór hópur trúnaðarmanna og þeir sem áttu sæti í samráðsnefndinni voru viðstaddir. Ég var viðstaddur þann fund.

Fulltrúar sveitarstjórnanna í heild taka gjarnan slíkar ákvarðanir og hljóta að hafa samráð eftir því sem þeim finnst við eiga. Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan í umræðunni, að þetta mál hefur verið rætt lengi á vettvangi sveitarstjórnanna. Ég hef ekki orðið var við mikla andstöðu við yfirtökuna á þessum 15%. Enda eru menn kannski sammála um það og ekki miklar deilur um það mál. Sannleikurinn er sá að þetta er ekki stór eignaraðild en það hefur valdið mikilli vinnu og árekstrum milli ríkis og sveitarfélaga, m.a. að meta hvað er meiri háttar viðhald og hvað minni háttar. Hvað sem menn segja um hreina verkaskiptingu þá held ég að þessi verkaskipting hafi verið það loðin að betra sé að hafa þetta svona í þessu tilfelli.

Ég tel hins vegar að öldrunarmálin hljóti áfram að vera samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, þó að í öðrum löndum sé víða hrein verkaskipting í því. Ég hitti t.d. belgíska heilbrigðisráðherrann á dögunum og spurði hvernig öldrunarmálum væri fyrirkomið hjá honum. Hann tilkynnti mér stutt og laggott að hann hefði ekkert með það að gera, það væri allt á hendi sveitarfélaganna. Ég er hins vegar ekki að leggja það til.

Það getur verið réttlætanlegt að sveitarfélög og ríkið taki á í aðkallandi verkefnum. Ég held að þetta sé minni háttar breyting miðað við margt annað. Síðan má deila um hvort ganga eigi svo langt að leggja stjórnina niður og hvort það á að bíða heildarendurskoðunar laga um heilbrigðisþjónustu. Mér finnst stjórnirnar í það lausu lofti að þær geti ekki beðið eftir þeirri heildarendurskoðun þó að það væri vissulega leið í málinu. Ég tel samt að það þurfi að skýra þessar línur af því að samkomulagið kallar á breytingar.