Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:27:20 (2574)

2002-12-12 14:27:20# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að engin frambærileg rök verði færð fyrir því að taka þessa breytingu og hraða henni í gegn, í aðdraganda þess að heildarendurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu er að hefjast. Það er beinlínis fráleitt, að ætla að byrja það starf með verulegri stjórnkerfisbreytingu í málaflokknum eins og hér um ræðir. Það væri þá a.m.k. þarft að hún yrði höfð þar undir.

Ég gruna ákveðna menn innan ráðuneytis hæstv. ráðherra um að reyna að læða þessu með þarna eins og hálfgerðu smyglgóssi, að slá af þessar stjórnir. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þetta sé skynsamleg ráðstöfun. Enga. Ég gef lítið fyrir þessi rök, að ekki megi skýra verksvið stjórna og framkvæmdastjóra í anda nýrra laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, það er ekket vandamál. Það má að sjálfsögðu gera.

Þessar stjórnir geta verið þarna áfram, haft ráðgefandi hlutverk, þjónað sem tengiliður starfsmanna og íbúa viðkomandi byggðarlaga við þessar mikilvægu stofnanir o.s.frv. Öll þau rök eru þarna áfram til staðar. Ég hafna algerlega málsmeðferðinni hér og þessum vinnubrögðum, að ætla djöfla þessu í gegn.