Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:33:01 (2579)

2002-12-12 14:33:01# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það ber vissulega að stefna að því að gerðar séu sömu kröfur til stjórnenda heilsugæslunnar og stjórnenda sjúkrahúsa. Hins vegar hefur heilsugæslan verið í mjög smáum einingum víða og þar hafa m.a. verið stjórnendur í hlutastörfum víðar en á einum stað, og nokkuð um það.

Það gefur augaleið að auðvitað ber að stefna að því að einingarnar í heilsugæslunni verði það öflugar að þær laði að sér stjórnendur sem ríkar kröfur eru gerðar til. Ég vil auðvitað stefna að því að þarna séu sömu kröfur gerðar og einingarnar það öflugar að þær beri stjórnendur með sömu kröfum og sjúkrastofnanir gera.