Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:39:03 (2584)

2002-12-12 14:39:03# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Vegna þess hve margir voru í andsvari gafst ekki tími til að ganga hér eftir svörum við tveimur spurningum í viðbót sem ég bar fram og taldi mig ekki fá svar við. Annars vegar hvort ekki hafi komið til tals hjá hæstv. heilbrrh. að breyta fyrirkomulagi á kjöri í stjórnir þannig að í staðinn fyrir að sveitarfélögin tilnefni þrjá menn eins og það er núna skipi heilbrrn. þrjá, starfsmannaráðin einn og sveitarfélögin einn og halda stjórnunum áfram sem fulltrúum heilbrrh. til að sjá um rekstur viðkomandi stöðva og sjúkrahúsa, til að ganga eftir því að farið sé að fjárlögum og öðru slíku. Ekki þarf að fella út stjórnendur vegna þess að 15% framlagið, rekstrarlega ábyrgðin, eignarhlutdeild og hlutdeild í stofnkostnaði, detti út. Ég held að það sé miklu betra eins og ég sagði áðan að stjórnirnar séu í nærumhverfi við viðkomandi sjúkrahús eða stofnanir og stjórni þannig í umboði heilbrrh.

Það var í fyrsta lagi þetta sem ég taldi mig ekki hafa fengið svar við. Mér fyndist þetta koma mjög sterklega til greina alveg eins og ég er á því að það sé tóm vitleysa að breyta þessum stjórnum núna eins og hér hefur verið rætt um. Máli mínu til stuðnings er að hið stóra og mikla sjúkrahús, Landspítali -- háskólasjúkrahús, verður áfram með sjö manna stjórn, eins og kveðið er á um í 8. gr. þar sem starfsmannaráð spítalans tilnefnir tvo menn, Alþingi fjóra og ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður, til þess að sjá um rekstur á hinu stóra og mikla sjúkrahúsi. Þetta eru auðvitað veigamikil rök og þetta er röksemdafærsla fyrir því að ástæða sé til að halda sams konar stjórn, kannski ekki sjö manna heldur fimm manna, fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri ef við tökum það sem dæmi.

Ég sé ekki hver munurinn á að vera þarna nema að hæstv. heilbrrh. sé með þessari lagabreytingu að beita sér fyrir því að allt stjórnunarvald fari frá landsbyggðinni suður til Reykjavíkur í ráðuneytið. Það lítur út fyrir það vegna þess að þetta á að vera svona áfram með Landspítala -- háskólasjúkrahús.

Í þriðja lagi vil ég bæta við einni spurningu þótt ég ætli ekki að lengja þessa umræðu meira. Mun hv. heilbrn. skoða það mál sem ég ræddi áðan hvað varðar eignasjóði sveitarfélaganna? Ég hvet til þess. Ég hygg að þau lög og reglur sem búið er að setja þar geri það að verkum að sveitarfélögin geti rukkað um 15% þátttöku af húsaleigu hvað varðar heilbrigðisstofnanirnar. Hitt atriðið sem ég vona að hv. heilbrn. taki til skoðunar sérstaklega er að skoða þann lagabálk eða þær reglugerðarsetningar sem hafa verið varðandi reikningsskil sveitarfélaga.

Í síðasta lagi er spurningin um það að nú hafa sveitarfélögin að loknum síðustu kosningum skipað sína þrjá fulltrúa í þessar stjórnir til fjögurra ára. Verður það fellt úr gildi með þessari lagasetningu eða mun það renna út eftir fjögur ár?