Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:00:57 (2589)

2002-12-12 15:00:57# 128. lþ. 54.2 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól fyrst og fremst vegna þess að hv. 3. þm. Norðurl. v. var að gera mér upp skoðanir. Ég er sannfærður um að það vantar þolinmótt fé inn í atvinnurekstur á Íslandi, tala nú ekki um þegar kemur að ferðaþjónustunni. Það er alveg ljóst að Byggðastofnun hefur í gegnum tíðina lánað mjög mikið til ferðaþjónustu á Íslandi og er það vel. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að Ferðamálasjóður falli inn í starfsemi Byggðastofnunar. Ég tel það af hinu góða.

Ég kom hingað fyrst og fremst til að segja að þau orð sem hv. þm. beindi til mín voru beinlínis uppspuni og mér finnst engin ástæða til að sitja undir þeim. Ég þekki það mjög vel í gegnum ferðaþjónustu vítt og breitt um landið, t.d. í mínu kjördæmi á Suðurlandi, að Byggðastofnun hefur einmitt lánað mjög mörgum ferðaþjónustuaðilum. Ég veit líka til þess að mjög margir ferðaþjónustuaðilar hafa kvartað undan Ferðamálasjóði. Ég held því að þessi tillaga sem hér er til umræðu, sú sem hæstv. samgrh. flutti hér og kynnti, sé af hinu góða.