Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:05:56 (2593)

2002-12-12 15:05:56# 128. lþ. 54.2 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að fjalla um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994.

Ég tek að mörgu leyti undir, og þarf svo sem ekki að lengja mál mitt mikið, þær bollaleggingar sem hv. þm. Kristján Möller var með áðan um þetta frv. Við hljótum að hafa áhyggjur af framhaldinu, sérstaklega vegna stöðu ferðamála og fjármögnunar ferðamálafyrirtækja á landsbyggðinni. Hér er lagt til að Ferðamálasjóður verði lagður niður og mér finnast mjög óljósar bollaleggingar um það hver eigi að taka við af honum.

Það er öllum kunnugt um það sem vinna í greininni, og raunar öllum úti á landsbyggðinni, að nú á dögum er mjög erfitt að fá fjármagn til þess að byggja upp úti á landi. Bankarnir hafa einfaldlega ekki áhuga á því að fjárfest sé úti á landi og þess vegna er mönnum þar mjög óhægt um vik. Þá kemur að því hver ferðamálastefna okkar í þessu landi er og hvernig við ætlum að byggja upp ferðamálaþjónustuna sem núna er næststærsta atvinnugrein okkar. Þetta er mikið mál. Við horfum fram á mikla aukningu og það er alveg augljóst að ferðamálastefnan mun ekki byggja á því að taka á móti öllum ferðamönnum á suðvesturhorninu. Það er algjört lykilatriði að við getum notað þetta stóra land. Danir fóru t.d. í þá vinnu fyrir 35 árum að útvíkka og stækka Danmörku, áður komu menn bara til Kaupmannahafnar eins og kunnugt er, og verkefnið var að stækka landið með kynningu á því öllu og freista þess að hafa meiri tekjur út úr ferðamálunum. Þeim tókst það.

Vinna okkar í ferðamálunum núna til framtíðar er einmitt þessi, þ.e. að byggja upp úti um landið, koma upp sterku neti þjónustufyrirtækja í ferðaþjónustu þannig að landið allt sé undir og afraksturinn geti orðið sem mestur.

Ég held að hæstv. ferðamálaráðherra, hæstv. samgrh., verði að skýra það örlítið betur út fyrir þinginu hver sýn hans á uppbyggingu þessa málaflokks er. Í umsögn fjmrn. um frv. kemur glögglega fram að ekki er gert ráð fyrir að veitt verði viðbótarfjármagn vegna þessara verkefna. Það segir ráðuneytið alveg skýrt og því muni frv. ekki hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Samhliða svona breytingum hljótum við þess vegna að kalla á þær mótvægisaðgerðir sem hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að grípa til. Hvað á að leysa Ferðamálasjóð af? Fyrir mér er Ferðamálasjóður ekkert heilagt fyrirbæri og það getur vel verið skynsamlegt að leggja hann niður en einhver önnur tól verður að nota til að ná þeim markmiðum sem við ætlum að ná varðandi uppbyggingu ferðaþjónustunnar úti um allt land.

Það má ekki henda okkur, þegar við gerum okkur glögga grein fyrir því hvert stefnir, að lenda í vandræðum með greinina. Í iðnn. var bara um daginn komið með frv. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem eru baktryggingar ríkissjóðs til þess að hægt sé að stunda hér skipasmíðar. Bankarnir eru ekki í stakk búnir til eða vilja ekki veita þessi lán. Bankarnir, eftir því sem manni er sagt, vilja ekki veita lán til ferðaþjónustunnar úti á landi.

Ef menn vita til hvers svona hlutir leiða, af hverju er þá ekki jöfnum höndum komið inn með einhverja aðra lausn? Hún gæti komið, eins og nefnt hefur verið hér, í gegnum Byggðastofnun sem væri með baktryggingasjóð af einhverju tagi. Það getur vel verið að það væri gott fyrirkomulag.

En Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun einmitt, þegar það verður samþykkt, gegna því lykilhlutverki að gera atvinnufyrirtækjum til útflutnings kleift að standa í slíkum framkvæmdum. Og þá er skipasmíðaiðnaðurinn þar efstur á blaði.

Ef þetta er rétt sýn á þróun mála verður að kalla eftir prógrammi, aðgerðum, til þess að standa straum af uppbyggingu í þessari grein. Hér erum við ekki að tala um neina smáhluti. Þetta er önnur stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Og við megum ekki við því að setja þessa grein á vonarvöl og vita ekkert hvert við stefnum.

Markaðurinn mun ekki þróa ferðaþjónustu á Íslandi. Það þarf að beita opinberum aðgerðum til þess að stýra henni, til þess að nýta landið til fullnustu. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið. Stórar ferðamannaþjóðir lentu í þeim pytti fyrir þrjátíu, fjörutíu árum að vera með einbeitta ferðamannaþjónustu inn á vissa punkta í löndum sínum. Eins og ég nefndi áðan varðandi Danmörku var Kaupmannahöfn þar nánast eini staðurinn um áratuga skeið. Það gafst þeim vel að stækka landið, gera plön um uppbyggingu alls staðar í landinu þannig að net ferðaþjónustufyrirtækja varð til og gaf þeim aukna möguleika og aukið vægi.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessum atriðum inn í umræðuna. Þeir þingmenn sem hér hafa talað hafa kallað eftir framtíðarsýn hæstv. ráðherra varðandi þjónustu við greinina og ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að það liggi hreint og klárt fyrir hvað á að taka við af Ferðamálasjóði og hvernig á að standa að uppbyggingu með nýju fjármagni inn í greinina á öðrum grunni, eins og með deild í Byggðastofnun eða eitthvað þess háttar sem ég get kannski fyrir mitt leyti fallist á að sé athugunar virði.