Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:17:35 (2594)

2002-12-12 15:17:35# 128. lþ. 54.4 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, EKG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 677 við frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Hér er um að ræða nokkrar efnisbreytingar. Í þessum brtt. er lagt til að teknar verði upp stiglækkandi fyrningar, afskriftir, í stað línulegra fyrninga, á lausafé.

Með stiglækkandi fyrningum eru eignir fyrndar af eftirstöðvum bókfærðs verðs í stað stofnverðs hverju sinni þannig að fjárhæð fyrninga er hæst fyrstu árin og fer síðan lækkandi. Mjög víða innan ríkja OECD eru notaðar stiglækkandi fyrningar eins og hér er verið að leggja til. Almennt virðast ríki sem heimila stiglækkandi fyrningar einnig beita línulegum fyrningum og þá á eignir sem hafa mjög langan líftíma, t.d. mannvirki. En stiglækkandi fyrningar eru frekar notaðar á lausafé eins og hér er raunar verið að leggja til.

Í fyrsta lagi, í samræmi við brtt., er lagt til að heimilaðar verði stiglækkandi fyrningar á lausafé, þar með talið skipum, loftförum, bifreiðum, vélum og tækjum, og það er verið að skilgreina fyrningargrunn þeirra eigna í þessari brtt. Þá er einnig lögð til ný 2. mgr. 35. gr. laganna þar sem síðari málsliðurinn er óþarfur eftir afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum en stofnverð eigna er að öðru leyti ákvarðað í 2. mgr. 10. gr. laganna.

Í annan stað eru í þessari brtt. lagðar til breytingar á fyrningarhlutföllum. Fyrningarhlutföll eigna sem fyrndar verða með stiglækkandi fyrningum eru hækkuð þannig að fyrningartíminn verði því næst hinn sami og áður sem leiðir til þess að uppsafnaðar fyrningar verða fyrstu árin hærri en þær hefðu orðið við línulegar fyrningar, en eins og áður segir þá verður fyrningartíminn óbreyttur þar sem fyrnt er niður í niðurlagsverð. Eftir að fyrningargrunnur í 2. mgr. 35. gr. laganna hefur annars vegar verið skilgreindur fyrir eignir sem fyrndar eru með línulegri fyrningu og hins vegar fyrir eignir sem fyrndar eru með stiglækkandi fyrningu er þörf á að breyta 45. gr. laganna til samræmis.

Þá vil ég geta þess að í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að rekstraraðilum verði einvörðungu heimilt á rekstrarárinu 2003 að nýta rekstrartöp aftur til rekstrarársins 1994 eða í níu ár þannig að tap verði ekki endurvakið með afturvirkum hætti þó svo að verið sé að lengja yfirfærslu tapa úr átta árum í tíu ár.

Að öðru leyti þarfnast þessar brtt. ekki skýringar. Þó vil ég segja, virðulegi forseti, að nauðsynlegt er að menn átti sig á því að í raun þýðir þetta ekki neina breytingu þegar litið er yfir heilt tímabil fyrir ríkissjóð eða þau fyrirtæki sem hér um ræðir. Fyrningin í heild sinni verður vitaskuld hin sama. Breytingin sem þetta felur hins vegar í sér er sú að fyrningarhlutfallið verður, eins og ég rakti hér áðan, með öðrum hætti fyrstu árin. Ef við skoðum þetta í einhverju samhengi þá blasir auðvitað við að þetta hlýtur fremur að koma til góða þeim fyrirtækjum sem eru ný, nýstofnuðum fyrirtækjum, sprotafyrirtækjum sem mjög er talað um hér í þingsölum að þurfi að styðja við með einhverjum hætti. Þessi breyting, sem er eðlileg vegna þess að við afnámum verðbólgureikningsskilin í fyrra, er í sjálfu sér þannig að hún hlýtur að virka ívilnandi fyrir ný fyrirtæki og þá sem eru að hefja atvinnurekstur og fjárfesta þannig í fyrsta sinn í upphafi síns atvinnurekstrar.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta. Ég hef útskýrt í hverju þessar breytingar felast. Ég hef vakið athygli á því að heildaráhrifin fyrir ríkissjóð eru engin þegar allt er skoðað. Það er auðvitað ljóst að breytingarnar hafa í för með sér einhver áhrif á einhverju tímabili en þær sléttast út síðar á því tímabili. Þetta eru eru ívilnandi breytingar fyrir ný fyrirtæki, fyrir sprotafyrirtæki. Þess vegna hlýtur að geta tekist um þetta nokkuð bærileg sátt í þinginu.