Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 15:39:21 (2596)

2002-12-12 15:39:21# 128. lþ. 54.4 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þá erum við komin að lokum þeirrar umræðu um tekjuskattspakka ríkisstjórnarinnar sem felur í sér talsverðar tilfærslur í sköttum og einnig verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Að mati fjmrn. nemur það tæpum tveimur milljörðum kr.

Menn hafa hér við umræðuna gagnrýnt áherslur ríkisstjórnarinnar, t.d. varðandi atvinnureksturinn, menn hafa gagnrýnt að launatengd gjöld séu hækkuð til að fjármagna lækkun tekjuskatts fyrirtækjanna. Þannig ætla menn að lækkun tekjuskattsprósentunnar feli í sér 1.700 millj. kr. tekjutap fyrir ríkið en það er síðan vegið upp með því að hækka tryggingagjaldið um 0,5%, en menn ætla að það gefi um 1.800 milljónir í ríkissjóð. Þetta er eitt sem hefur verið gagnrýnt við umræðuna og því haldið fram að þessar áherslubreytingar í skattlagningu á atvinnurekstur séu ekki til þess fallnar að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku. Og það er alvarlegur hlutur ef fer fram sem horfir að atvinnuleysi vaxi í landinu.

Í októbermánuði voru 1.700 manns á atvinnuleysiskrá umfram það sem var á þeim sama tíma í fyrra. Síðan þær tölur voru birtar hefur atvinnuleysið enn aukist og menn óttast að það stefni í um 3%.

Að öðru leyti hefur komið fram mjög eindregin gagnrýni frá samtökum launafólks, frá félagasamtökum, almannasamtökum, öryrkjum, samtökum eldri borgara, og það er athyglisvert að öll þessi samtök tala einum rómi með fulltrúum stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Talsmenn þessara hópa sögðu á fundum með efh.- og viðskn. að um þessar áherslubreytingar og um stefnuna í skattamálum yrði aldrei sátt í þjóðfélaginu, það yrði aldrei sátt í þjóðfélaginu um þá skattstefnu sem ríkisstjórnin fylgir. Þar var vísað til þess að á sama tíma og ríkisstjórnin neitar að koma til móts við tekjulægstu hópana í skattkerfisbreytingum þá er hátekjufólkinu ívilnað. Við atkvæðagreiðslu í gær felldi stjórnarmeirihlutinn tillögur frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um að fallið yrði frá því að lækka hátekjuskattsþrepið úr 7% í 5%.

Við lögðum einnig til að fallið yrði frá því að hækka skattleysismörk þessara hópa, skattleysismörk hátekjuþrepsins. Það var hækkað um 2,75%, upp í 340 þús. kr. Þetta var gert við atkvæðagreiðslu í lok 2. umr. í gær. Á sama tíma eru skattleysismörk almenns launafólks rétt rúmar 70 þús. kr. Það hefur kostað mikla baráttu að fá ríkisstjórnina til þess að láta þau mörk hreyfast með launaþróun í landinu.

Það eru þær áherslubreytingar sem hafa verið gagnrýndar og ég endurtek að þar hafa talað einum rómi fulltrúar verkalýðshreyfingar, almannasamtaka og stjórnarandstöðu á Alþingi. Og þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin ætti að láta sér að kenningu verða.

Annað sem hefur verið gagnrýnt eru ívilnanir til fyrirtækja og felast í því að fjölga þeim árum sem heimilt er að færa tekjutap á milli, og síðan á síðari stigum undir lok umfjöllunar efh.- og viðskn. birtist skyndilega lagabreyting sem kveður á um stiglækkandi fyrningar.

Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að við í stjórnarandstöðunni vorum ekki með okkar andstöðu eða efasemdum að gagnrýna þær kerfisbreytingar sem slíkar. Við gagnrýnum hins vegar vinnubrögðin, að brtt. skuli koma inn á síðustu stigum og að þinginu gefist ekki tóm til að fara rækilega í saumana á þeim hugmyndum sem verið er að kynna. Út á það gekk gagnrýni okkar fyrst og fremst.

Ég er sammála þeim brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir áðan en vil gera sérstaklega að umræðuefni tvær brtt., þ.e. við 4. gr. og við 12. gr. frv. Þar er vísað til reglna sem settar eru um reiknað endurgjald og hins vegar reglur um mat á hlunnindum.

[15:45]

Það kom fram í umræðum í efh.- og viðskn. þingsins að það hafi verið gagnrýnt í þjóðfélaginu hvernig staðið er að þessari reglusmíð sem skattstjóraembættin byggja á. Til að setja það yfir á mannamál er t.d. verið að fjalla um það að fyrirtæki efni til árshátíðar fyrir starfsmenn, bjóði þeim til kvöldverðar, skemmtunar eða út fyrir bæjar- eða borgarmörk ef því er að skipta. Og þetta getur kostað sitt. Þá eru settar reglur sem kveða á um að slíkt skuli talið til hlunninda, launaígildis, og skattlagt. Menn hafa gagnrýnt að með þessu móti sé annars vegar verið að bregða fæti fyrir félagslega viðleitni innan fyrirtækjanna og koma í veg fyrir að stuðlað sé að samveru starfsmanna, jákvæðri viðleitni innan fyrirtækjanna. Hins vegar var bent á að þetta gæti orðið til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki byðu starfsmönnum sínum um langan veg, í aðra landshluta, til árshátíðar eða einhvers slíks. Og þess vegna yrðu þessar stífu reglur sem telja allar slíkar greiðslur til launa og hlunninda þannig til þess að veikja ferðamannaiðnað á landsbyggðinni. Á þetta var bent í umræðum í efh.- og viðskn.

Í kjölfarið fóru menn að ræða hvernig þessar reglur væru smíðaðar. Eins og ég gat um áðan er það skattstjóraembættið sem smíðar reglurnar. Og menn spyrja: Hvaða úrræði hafa þá þeir sem eru á öðru máli en ríkisskattstjóri og vilja koma gagnrýni sinni fram?

Ein hugmyndin var sú að sett yrði einhvers konar nefnd sem hefði úrskurðarvald. Það finnst mér ekki vera góður kostur nema síður væri vegna þess að á endanum hlýtur hún að byggja á lögum eða reglum og hefur ekki aðrar forsendur en þær sem skattstjórinn hefur. Hin hugmyndin var að þessar ákvarðanir þyrfti að tengja einhverri pólitískri ábyrgð. Ég var sammála því, og ég er sammála því.

Það var þess vegna sem ég var tilbúinn að samþykkja tillögur sem komu frá stjórnarmeirihlutanum sem kváðu á um það að fjmrh. skuli setja reglurnar en að fengnum tillögum frá ríkisskattstjóra. Reyndar hefði mér fundist heppilegasta leiðin vera sú að lögin um þetta yrðu svo skýr að þingið kæmi beint að gerð þessarar reglusmíðar allrar. Það segja menn að sé erfiðleikum háð, þetta þurfi að einhverju leyti að byggja á reglugerðum, en með þessu móti sem sagt fannst mér við vera búin að tengja pólitíska ábyrgð málinu.

Síðan kemur fram ný tillaga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar fyrir. Hún er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóri setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald í samræmi við grein þessa og nánari ákvæði um meginreglur og viðmiðanir í reglugerð sem ráðherra setur.`` --- Í reglugerð sem ráðherra setur.

Þarna er búið að tengja hina pólitísku ábyrgð reglusmíðinni. Mér finnst þessi tillaga vera mjög góð og mjög í samræmi við vilja manna almennt í efh.- og viðskn. Og nú finnst mér reyna á það að við látum það ekki gerast að vegna þess að tillagan kemur frá stjórnarandstöðunni geti menn ekki samþykkt hana. (Gripið fram í: Ha?) Þá geti menn ekki samþykkt hana. Mér finnst að við þurfum að lyfta okkur upp fyrir þetta. Þess vegna, herra forseti, kalla ég eftir málefnalegum rökum gegn þessari brtt. Mér finnst ekki ganga að þegja hana í hel. Við erum að setja lög um hvernig skatteftirliti skuli háttað í landinu og við þurfum að vanda okkur við þá lagasmíð. Ég er að segja og ég leyfi mér að staðhæfa það að þessi brtt. eins og hún kemur hér fram er fullkomlega í samræmi við þann vilja sem fram kom í efh.- og viðskn. í umræðu um málið. Þess vegna á ég óskaplega erfitt með að sætta mig við annað en að málið fái a.m.k. málefnalega umræðu hér.

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessara lagabreytinga og ítreka að ég er sammála þeim brtt. sem fram hafa komið og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir hér áðan en legg áherslu á að við fáum að heyra röksemdir úr ranni stjórnarmeirihlutans gegn þeim hugmyndum þá sem lagðar hafa verið fyrir þingið.