Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:05:07 (2600)

2002-12-12 16:05:07# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta er ekki um það að ræða að verið sé að semja um Kárahnjúkavirkjun eins og yfirskrift umræðunnar ber með sér. Alþingi hefur lokið umfjöllun um virkjunina og samþykkt leyfi til Landsvirkjunar um framkvæmdina með 44 atkvæðum gegn 9. Hins vegar er mér ljúft að greina frá stöðu samningaviðræðna við Alcoa um byggingu álvers í Reyðarfirði.

Á næstu dögum verða samningar milli stjórnvalda, Landsvirkjunar og Alcoa áritaðir. Mikilvægt er að gera grein fyrir gildi áritunar. Ekki er um eiginlega undirskrift að ræða og því ekki skuldbindandi fyrir aðila máls. Samninganefndir ljúka þá störfum sínum og afhenda fullkláraða samninga til stjórnar Landsvirkjunar og Alcoa til afgreiðslu, og ráðuneytisins svo að hægt sé að leggja málið fyrir Alþingi. Samningar verða ekki undirritaðir fyrr en eftir áramót.

Þegar samningstexti liggur fyrir þarf að afla heimildar Alþingis, samþykkis sveitarstjórnar Fjarðabyggðar, stjórna Alcoa, Landsvirkjunar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar. Þá þarf niðurstaða Skipulagsstofnunar um matsskyldu að liggja fyrir auk niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA. Samningar þeir sem snúa að ríkinu verða ekki undirritaðir fyrr en allt þetta liggur fyrir. Ég vona að áritun samninga geti farið fram á næstu dögum og að málið verði lagt fyrir Alþingi á fyrstu dögum þings eftir jólahlé.

Ég vil nota þetta tækifæri til að ræða aðeins um nokkur atriði sem ofarlega hafa verið í umræðunni síðustu daga. Fram hefur komið krafa um að viðræðum við Alcoa verði frestað þar til niðurstaða dómstóla liggi fyrir í máli andstæðinga virkjunar og varðar úrskurð umhvrh. um Kárahnjúkavirkjun. Þetta dómsmál er ekki nýtt, og áður hefur svipuðu máli frá sömu aðilum verið vísað frá dómi. Aðalkrafa þessara aðila í fyrra dómsmálinu sem þeir vísuðu alla leið til Hæstaréttar var sú að úrskurður umhvrh. yrði felldur úr gildi og ráðherra gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Þessari kröfu var vísað frá dómi þar sem þessir aðilar höfðu ekki lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur gengi um kröfuna.

Það er auðvitað hægt að leggja málið aftur og aftur fyrir dóm en það er ekki hægt að ætlast til að samningaviðræður leggist af við það. Þetta er enn ein tilraun andstæðinga til að hafa áhrif á málið.

Þegar andstæðingar virkjunar reikna út tap af framkvæmdum er það tilgangurinn sem helgar meðalið. Þeir leggja fyrir þær forsendur að Landsvirkjun beri að gera mun meiri kröfur til ávöxtunar eigin fjár og vaxtakostnaðar en Landsvirkjun sjálf telur rétt, og eigendur hennar einnig. Þannig ber fjármögnunin það háa vexti að andstæðingar geti reiknað út tap af framkvæmdinni. Þetta er alveg út í hött. Það sem er mikilvægt er að virkjunin mun standa undir sér og áætlað er að hún skili eigendum 14% raunarði eigin fjár sem teldist gott hjá hvaða orkufyrirtæki sem er. En það er ekki bara í hagnaðarskyni fyrir Landsvirkjun sem virkjunin er byggð. Hún er líka byggð til að laða að erlenda fjárfestingu, skapa hagvöxt og skapa störf, skapa ríkissjóði tekjur af álveri til að standa undir velferðarkerfinu. Svokölluð náttúruverndarsamtök hafa valdið vonbrigðum, sérstaklega framganga aðila í nafni norðurheimsskautsráðs World Wildlife Fund. Þessir aðilar hafa ítrekað orðið uppvísir að villandi upplýsingum í erlendum fjölmiðlum.

Árni Finnsson, starfsmaður sjóðsins á Íslandi, birti til að mynda grein í erlendu tímariti þar sem var mynd af Dettifossi, myndin tekin af Guðmundi Páli Ólafssyni, og sagt að Dettifoss yrði eyðilagður með Kárahnjúkavirkjun. Orðrétt segir í myndatexta með myndinni, með leyfi forseta:

,,Dettifoss er í Jökulsá á Fjöllum og er stærsti foss í Evrópu. Þessi foss er einn af um 100 fossum sem verða virkjaðir fyrir Noral-álverkefnið.``

Þarna er einfaldlega vísvitandi farið með rangt mál og ég er ekki hissa þótt útlendingum sem þekkja ekki til þyki mikil verðmæti í húfi miðað við þær upplýsingar sem þeim berast. Þetta eru baráttuaðferðir íslenskra umhverfisverndarsinna. Svona bera þeir sig upp við erlend fyrirtæki og samtök. Ég get ekki annað en gagnrýnt slík vinnubrögð jafnvel þótt vísindamenn taki þátt í þeim. (ÖJ: Er ekki rétt að reyna að svara einhverjum spurningum?)