Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:21:26 (2606)

2002-12-12 16:21:26# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári með 44 atkvæðum gegn 9 að heimila Landsvirkjun að ráðast í Kárahnjúkavirkjun. Það er því fagnaðarefni sem fram kom í ræðu hæstv. iðnrh., að samningar milli stjórnvalda, Landsvirkjunar og Alcoa verða áritaðir á næstu dögum.

Hæstv. ráðherra gerði einnig grein fyrir því ferli sem þá tekur við en ástæða er til að vera bjartsýnn á að Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði verði að veruleika og í raun hefur undirbúningur gengið betur en ég þorði að vona þegar Alþingi samþykkti lög um virkjunina sl. vetur.

Andstæðingar þessara framkvæmda hafa reynt að gera framkvæmdina tortryggilega með ýmsum hætti. Nú er það samningagerðin, áður að Landsvirkjun mundi tapa milljörðum og aftur milljörðum á Kárahnjúkavirkjun. Það gengur þvert á útreikninga Landsvirkjunarmanna, og minna má á að í samræmi við 11. gr. orkulaga kynnti Orkustofnun sér útreikninga Landsvirkjunar á kostnaði við ráðgerða virkjun og rekstraráætlun hennar. Í umsögn Orkustofnunar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Öllum slíkum verkefnum fylgir áhætta. Því er mikilvægt að aðferðfræði við hagkvæmnismatið taki tillit til áhættuþátta og hugsanlegra breytinga á forsendum um leið og mat sé lagt á líkindi allra breytinga. Af þessum sökum hefur Orkustofnun kynnt sér sérstaklega hvernig Landsvirkjun stendur að verki í þeim efnum. Stofnunin telur aðferðafræðina vandaða og ítarlega og því séu allar forsendur fyrir hendi til þess að niðurstaða Landsvirkjunar um það hvort í verkefnið skuli ráðist byggi á traustum grunni og þar með að sú ákvörðun verði í fullu samræmi við tilvitnað lagaákvæði.``

Enn ein aðferðin við að gera verkefnið tortryggilegt er að birta myndir af náttúruperlum sem verði eyðilagðar með þessum framkvæmdum en koma þessum framkvæmdum í raun ekkert við. Hæstv. ráðherra nefndi dæmi um slíkan málflutning í ræðu sinni. Svipuðum aðferðum beita svokallaðir náttúruverndarsinnar varðandi fyrirhugaða framkvæmd við Norðlingaöldu þar sem ég og fleiri sem bent hafa á að sáralítið gróið land fari þar undir vatn eru sakaðir um að vilja eyðileggja Þjórsárver, hvorki meira né minna. Þetta er auðvitað ómerkilegur málflutningur, og engum málstað til framdráttar að beita slíkum blekkingum.

Það er mjög mikilvægt að af þessum stórframkvæmdum verði á Austurlandi. Það mun auka útflutning Íslendinga um nokkra tugi milljarða á ári og stórauka hagvöxt. Það mun einnig gjörbreyta lífsskilyrðum á Austurlandi en þar hefur fólki fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Það er því ástæða til að fagna því hvað undirbúningur þessara stórframkvæmda gengur vel.