Staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 16:38:39 (2616)

2002-12-12 16:38:39# 128. lþ. 54.95 fundur 317#B staðan í samningaviðræðum um Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[16:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það sem ég geri athugasemd við og tel ósanngjarnt í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var að hann sagði að ég hefði fyrir nokkrum dögum gefið veiðileyfi á vísindamenn. Það sem ég sagði fyrir einhverjum dögum var að ég velti því upp hvort ekki væri hugsanlegt að þær pólitísku skoðanir vísindamanna sem hefðu opinberlega gefið til kynna að þeir væru andstæðinga einhverra framkvæmda gætu haft áhrif á vísindastörf þeirra. Ég spurði hvort það væri ekki hugsanlegt. (ÖJ: En fylgismenn?) Þessu hefur hv. þm. snúið við þannig að það verður eins og ég hafi fullyrt það. Þessu vildi ég koma á framfæri og bera þetta af mér.

Hv. þm. líður greinilega illa yfir þessari grein sem ég vitnaði til en hún er frá því í nóvember 2001. Hún er ekki eldri en það.